Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur kallað þjóðaröryggishóp sinn til fundar í kjölfar kjarnorkusprengjutilraunar stjórnvalda í Norður-Kóreu sem gerð var í nótt að íslenskum tíma.
„Þjóðaröryggishópurinn fylgist grannt með þessu,“ sagði fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, Srah Huckabee Sanders, á blaðamannafundi nú fyrir skömmu.
„Forsetinn og þjóðaröryggishópur hans munu funda síðar í dag. Við munum halda áfram að gefa upplýsingar eftir þörfum.“
Fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur þá hafið undirbúning frekari efnahagsþvingana gegn Asíuríkinu, „sem myndu einangra Norður-Kóreu efnahagslega“ að sögn fjármálaráðherrans Steven Mnuchin.
„Við munum vinna með bandamönnum okkar. Við munum vinna með Kína. En fólk þarf að einangra Norður Kóreu efnahagslega, þetta er óásættanleg hegðun.“