Bandaríkin eru tilbúin að beita kjarnavopnum haldi stjórnvöld í Norður-Kóreu hótunum sínum áfram. Þessu lýsti Donald Trump Bandaríkjaforseti yfir í samtali við Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans í gærkvöld.
Í fréttatilkynningu sem Hvíta húsið sendi frá sér í gærkvöldi kom fram að þeir Trump og Abe hefðu rætt um ógnina sem stafaði frá Norður-Kóreu og að Trump hafi ítrekað við Abe að Bandaríkjunum bæri skylda til að verja eigin þjóð og yfirráðasvæði, auk yfirráðasvæði bandamanna sinna. Til þess að virða þessa skuldbindingu, þá séu þau reiðubúin að beita öllum mögulegum leiðum, diplómatískum og hefðbundnum, sem og þeim kjarnavopnum sem Bandaríkin hafi yfir að ráða.
Greint var frá því í gærmorgun að Norður-Kórea hafi sprengt vetnissprengju neðanjarðar í tilraunaskyni og er sprengjan fimm eða sex sinnum öflugri en síðasta kjarnorkutilraun ríkisins. Skjálftinn frá kjarnorkusprengingunni mældist 6,3 stig og hafa ráðamenn víða um heim í kjölfarið keppst við að fordæma tilraunina.
Boðað hefur verið til fundar í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í dag þar sem andsvar við tilrauninni verður til umræðu og Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, varaði við því í gær að öllum hótunum í garð Bandaríkjanna eða bandaþjóða yrði svarað með öflugum hernaðaraðgerðum.
Yfirvöld í Japan og Kína greindu frá því í dag að engin geislavirkni hafi enn mælst í andrúmslofti vegna vetnissprengjunnar, en óttast var að hrun vegna sprengingarinnar myndi leiða til þess að geislavirknin næði upp á yfirborðið.
Fréttastofa AFP hefur eftir Yoshihide Suga, talsmanni Japansstjórnar, að loftmælar víða um landið hafi ekki greint neitt slíkt, né heldur hafi geislavirkni mælst í loftmælingum varnarmálaráðuneytisins.
Umhverfisráðuneyti Kína hefur sömuleiðis greint frá því að enginn geislavirkni hafi heldur mælst á landamærum Kína og Norður-Kóreu.