Vilja fríverslun í stað EES-samningsins

Ljósmynd/Norden.org

Fleiri Norðmenn vilja skipta aðild Noregs að EES-samningnum út fyrir nýjan viðskiptasamning en þeir sem vilja halda í hann ef marka má niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar. Þetta kemur fram á fréttavef norska ríkisútvarpsins NRK. Þar segir að 40% vilji skipta út EES-samningnum en 35% vilji hins vegar halda í hann. Fjórðungur tekur hins vegar ekki afstöðu.

Fram kemur í fréttinni að Sósíalíski vinstriflokkurinn, Miðflokkurinn og Rauði flokkurinn vilji semja um nýjan viðskiptasamning í stað EES-samningsins sem Ísland og Liechtenstein eiga einnig aðild að og felur í sér að löndin þrjú eru hluti af innri markaði Evrópusambandsins. Fyrir vikið þurfa þau að taka upp löggjöf sambandsins sem gildir um innri markaðinn.

Frétt mbl.is: Vilja þjóðaratkvæði um EES-samninginn

Framfaraflokkurinn vill endurskoða EES-samninginn en stóru flokkarnir tveir, Hægriflokkurinn og Verkamannaflokkurinn, eru því hins vegar andvígir. Fleiri kjósendur beggja flokka eru þó á öðru máli en þeir sem eru sammála flokkunum. Einungis meirihluti kjósenda Umhverfisflokksins og Frjálslynda flokksins vilja halda í samninginn af þeim sem taka afstöðu.

Þessar niðurstöður eru í samræmi við aðrar skoðanakannanir fyrr á árinu þar sem spurt hefur verið á hliðstæðum nótum. Vidar Helgesen, umhverfisráðherra Noregs, segir við NRK að hann telji ekki að hægt sé að endursemja um EES-samninginn. Þá sé EES-samningurinn nauðsynlegur eigi Noregur að vera áfram góður fjárfestingakostur.

Frétt mbl.is: Skiptar skoðanir um EES

Svein Roald Hansen, þingmaður Verkamannaflokksins og fulltrúi í utanríkismálanefnd Stórþingsins, segir ekki gott að skapa óvissu í kringum EES-samninginn. En Jonas Gahr Støre, leiðtogi Verkamannaflokksins, hefur hins vegar sagt að hann sé reiðubúinn að láta gera úttekt á því hvaða aðrar leiðir mætti fara í stað EES-samningsins fari hann fyrir næstu ríkisstjórn landsins en þingkosningar verða á mánudaginn.

Støre segist telja að þrátt fyrir skoðanakannanir sé meirihluti fyrir því að halda í EES-samninginn en hins vegar sé ljóst að taka þurfi þessa umræðu fyrr eða síðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert