Umdeildur fjölskyldudagur fangelsisstarfsmanna

Fangelsi. Myndin er þó ekki úr Ringerike-fangelsinu í Buskerud.
Fangelsi. Myndin er þó ekki úr Ringerike-fangelsinu í Buskerud. AFP

„Það er algjörlega fáránlegt að vistmönnunum sé „refsað“ til að fjölskyldur starfsfólksins geti átt góða upplifun í fangelsinu,“ segir Knut Ditlev-Simonsen lögmaður í samtali við norska blaðið VG í dag en skjólstæðingur hans er í hópi fanga sem læstir verða inni í klefum sínum í fjóra og hálfan klukkutíma eftir hádegi á morgun, laugardag.

Talsmenn fangelsisins útskýra gjörðir sínar með því að eðlilega verði aðeins örfáir fangaverðir í starfhæfu ástandi á meðan aðrir úr þeirra hópi sýni fjölskyldum sínum vinnustaðinn hátt og lágt og þar með verði vistmenn að sýna því skilning að mæla gólf klefa sinna meðan á opna deginum stendur. Uppákoman á sér þó alvarlegri rætur.

Myrti samfanga í febrúar

„Við ákváðum að halda opinn dag vegna þess að þeir sem nánast standa starfsfólkinu hafa þörf fyrir að sjá hvernig er umhorfs hér, ekki síst eftir þá sorglegu uppákomu sem manndrápið hér inni fyrr á árinu var,“ segir Håkon Melvold, forstöðumaður fangelsisins, og vísar þar til þess þegar fangi á sextugsaldri, sem nýlega hafði hlotið 17 ára dóm fyrir að myrða næturvörð í Ósló, stytti samfanga sínum aldur í febrúar á þessu ári.

Norska ríkisútvarpið NRK fjallaði ítarlega um það mál á sínum tíma og kom þar meðal annars fram að Ringerike-fangelsið væri hámarksöryggisfangelsi með pláss fyrir 160 manns í afplánun í einu en þangað séu eingöngu þeir fangar sendir sem hafa gerst sekir um alvarleg afbrot, einkum ofbeldisbrot, og þykja beinlínis hættulegir.

Skjólstæðingur lögmannsins Ditlev-Simonsen hyggst kæra opna daginn með þeim rökum að í raun réttri sé föngum refsað með aðgerð sem megi jafna við fulla einangrun til að hafa ofan af fyrir fjölskyldum fangavarðanna sem geti þá frílystað sig að vild innan múranna án þess að „vera angraðir af föngum“.

Mest greint frá ofbeldi og hótunum

Melvold forstöðumaður segir annað ótækt en að reyna eftir föngum að halda vistmönnum aðskildum frá gestunum. Vissulega missi þeir af útivistartíma og líkamsrækt sem þeir eigi rétt á en það verði þeim bætt upp eftir að fangelsið lokar opna deginum á morgun.

Knut Are Svenkerud, formaður stéttarfélags fangelsisstarfsfólks í Noregi, segir að opnir dagar séu haldnir annað slagið í norskum fangelsum. „Þar sem það er hægt er það fullkomlega eðlilegt að aðstandendur eigi þess kost að sjá hvernig vinnustaður pabba, mömmu eða makans lítur út. Refsivörslukerfið er ákaflega lokað kerfi og megnið af upplýsingunum um hvað gerist innan þess kemur frá fjölmiðlum þar sem mest er greint frá ofbeldi og hótunum,“ sagði Svenkerud í samtali við VG í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka