Margir vilja sjá hann sem næsta leiðtoga breska Íhaldsflokksins og benda skoðanakannanir til þess að hann njóti mests stuðnings til þess. Sjálfur hefur hann ítrekað sagt að hann hafi engan hug á að sækjast eftir þeirri stöðu né að verða forsætisráðherra Bretlands. Hins vegar hefur hann ekki útilokað það að bjóða einhvern tímann fram krafta sína.
Maðurinn heitir Jacob Rees-Mogg og hefur verið þingmaður fyrir kjördæmið North East Somerset síðan árið 2010. Hann hefur sagt að enginn hafi áður farið frá því að vera óbreyttur þingmaður og í það að verða leiðtogi Íhaldsflokksins. Fyrir vikið þyrfti ýmislegt að gerast áður en til þess kæmi fengi hann til þess nægan stuðning. Hins vegar hefur orðrómur verið um að til stæði að veita honum stöðu á vegum ríkisstjórnarinnar.
Rees-Mogg þykir sérvitur og hefur verið kallaður þingmaður nítjándu aldarinnar í gamansömum tón þó vafalaust fylgi því einnig alvara. Hann tilheyrir auðugri fjölskyldu og talar með enskum yfirstéttar hreim og hafa því margir klórað sér í kollinum yfir vinsældum hans. Þá ekki síst vinsælda sem hann hefur notið á samfélagsmiðlum eins og Twitter.
Rees-Mogg er fæddur árið 1969 og var menntaður í Eton-háskóla eins og margir af forystumönnum Bretlands í gegnum tíðina hafa verið. Hann er kvæntur og á sex börn. Það yngsta, drengur sem fékk nafnið Sixtus, fæddist fyrr á þessu ári. Hann er kaþólskrar trúar, á það til að slá um sig með latínu og þykir mjög íhaldssamur í siðferðismálum.
Fyrir helgi vakti mikla athygli í Bretlandi þegar Rees-Mogg sagðist aðspurður í breskum sjónvarpsþættinum Good Morning Britain „því miður“ ekki geta trúar sinnar vegna stutt fóstureyðingar undir nokkrum kringumstæðum. Þar með talið í tilfelli nauðgunar eða sifjaspells. Sagðist hann þeirrar skoðunar að líf nýs einstaklings hæfist við getnað.
Einnig var Rees-Mogg spurður um afstöðu hans til hjónabanda samkynhneigðra og sagði hann: „Ég er kaþólskur. Ég tek kennisetningar kaþólsku kirkjunnar mjög alvarlega.“ hjónabandið væri sakrament og það væri kirkjunnar að ákveða hvað væri sakrament en ekki þingsins. Hjónaband snerist ekki um það með hvaða hætti fólk lifði lífi sínu.
Spurður hvernig hann gæti sagt berum orðum að hann væri á móti fóstureyðingum en ekki hjónaböndum samkynhneigðra sagði Rees-Mogg að þarna væri grundvallarmunur á. Hjónabönd samkynhneigðra væri eitthvað sem fólk gerði fyrir sig sjálft. Hans væri ekki að dæma í þeim efnum. Fóstureyðingar bitnuðu hins vegar á ófæddum börnum.
Rees-Mogg lagði ennfremur áherslu á að enginn væri að fara að breyta þeim lögum sem giltu í dag í Bretlandi um fóstureyðingar og hjónabönd samkynhneigðra. Það yrði heldur ekki raunin þó hann yrði einhvern tímann forsætisráðherra. Þessi málefni væru enda ekki flokkspólitísk heldur væri það hvers þingmanns fyrir sig að taka afstöðu til þeirra.
Margir hafa brugðist ókvæða við ummælum Rees-Moggs. Bæði innan breska þingsins og utan þess. Missterkt orðalag hefur þó verið notað í því sambandi. Sumir hafa einfaldlega sagst vera ósammála ummælunum á meðan aðrir hafa fordæmt þau og sagt þau eiga heima á miðöldum. Rees-Mogg hefur einnig hrósað fyrir að standa með sannfæringu sinni.
Ráðgjafaþjónusta fyrir barnshafandi konur í Bretlandi (The British Pregnancy Advisory Service ) hefur sagt ummæli Rees-Moggs um fara gegn almenningsálitinu í Bretlandi. Haft er eftir Katherine O'Brien hjá BPAS á fréttavef breska dagblaðsins Guardian að skoðanir Rees-Moggs væru öfgasinnaðar og engan veginn í takt við breskt samfélag í dag.
Bretland væri þannig hlynnt vali kvenna þegar kæmi að fóstureyðingum og sama ætti við um breska þingið að sögn O'Brien. Hver stjórnmálamaður ætti rétt á að hafa sína skoðun á fóstureyðingum en það sem mestu máli skipti væri hvort þeir létu persónulega sannfæringu sína standa í vegi þess að konur gætu tekið eigin ákvarðanir í þessum efnum.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur einnig séð sig knúna til þess að lýsa því yfir að hún sé ósammála Rees-Mogg. Talsmaður hennar lagði þó ríka áherslu á að hver þingmaður ætti rétt á því að taka afstöðu til málsins út frá eigin sannfæringu. Benti hann á að fyrir því væri löng hefð í breska þinginu þegar kæmi að þessu máli.
Sarah Vine, dálkahöfundur hjá Daily Mail, er á meðal þeirra sem hafa hrósað Rees-Mogg fyrir að standa með sannfæringu sinni. Vine, sem er eiginkona Michaels Gove umhverfisráðherra Bretlands, segist ósammála Rees-Mogg en hins vegar sé sjaldgæft að stjórnmálamenn séu svo heilsteyptir og það sé mikils virði í dag á tímum pólitísks rétttrúnaðar.
Fraser Nelson, sem ritar reglulega greinar fyrir breska dagblaðið Daily Telegraph og er ennfremur ritstjóri tímaritsins Spectator, tekur í svipaðan streng og spyr hvort frjálslynd þröngsýni sé að ryðja sér til rúms þar sem þeir sem eru trúaðir þurfi að fela það af ótta við að verða fyrir aðkasti. Slíkur skortur á umburðarlyndi sé ekki mjög breskt.
Rees-Mogg hefur á tiltölulega skömmum tíma komist með áberandi hætti í kastljós fjölmiðla og samfélagsmiðla. Hvort ummæli hans í Good Morning Britain í vikunni og viðbrögðin við þeim eigi eftir að hafa áhrif á möguleika hans á því að verða leiðtogi Íhaldsflokksins í framtíðinni og jafnvel forsætisráðherra á hins vegar eftir að koma í ljós.