Pólskt drykkjafyrirtæki hefur samþykkt að breyta nafninu á límonaðidrykk sínum í On Lemon eftir að Yoko Ono, ekkja bítilsins John Lennon, hótaði félaginu málsókn. Hinn kolsýrði svaladrykkur sem um ræðir hefur hingað til borið heitið John Lemon.
Fyrirtækið pólska var stofnað fyrir fimm árum. Eftir bréfsendingar frá lögmannateymi Ono til móðurfyrirtækisins og dreifingaraðila í Evrópu hefur félagið, sem fyrr segir, samþykkt að breyta nafni límonaðidrykkjarins og skuldbundið sig til að selja lager sinn af John Lemon fyrir októberlok.
Talsmenn fjölskyldufyrirtækisins, sem selur drykki til ölstofa og veitingastaða í Bretlandi og 13 öðrum Evrópulöndum, vill ekki meina að það hafi notast við ímynd Lennon til að auka sölu sína.
Hefur Guardian eftir Karol Chamera, stofnandi Mr Lemonade Alternative Drinks, dreifingaraðila drykkjarins í Bretlandi, að allir sem komi að málinu séu sprotafyrirtæki sem hafi engin úrræði til að kljást við auðkýfing á borð við Ono.
Samkvæmt kvörtun lögmanna ekkjunnar braut drykkjarheitið gegn höfundarrétti Lennon og erfingja hans. Segja þeir skaðann nema 630 þúsund krónum á dag og 63 þúsund krónum fyrir hvern seldann drykk.
Þá sakar Joris Van Manen hjá hollensku lögmannstofunni Hoyng Rokh Monegier fyrirtækið pólska um að „misnota“ arfleifð tónlistarmannsins til að selja svaladrykkinn.
Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.