Rafmagnað andrúmsloft í Barcelona

Mótmælendur safnast saman við utanríkisráðuneyti Katalóníu í Barcelona í dag. …
Mótmælendur safnast saman við utanríkisráðuneyti Katalóníu í Barcelona í dag. Mikill spenna er í loftinu eftir aðgerðir spænskra yfirvalda. AFP

Spænsk lögregluyfirvöld hafa handtekið 14 katalónska embættismenn og ráðist inn í þau ráðuneyti sjálfstjórnarhéraðsins sem koma að skipulagningu fyrirhugaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu um aðskilnað Katalóníu frá Spáni.

Mikill fjöldi mótmælenda safnaðist saman á meðan húsleit stóð yfir í efnahagsráðuneytinu í Barcelona en andrúmsloftið var þegar spennuþrungið áður en yfirvöld handtóku ráðherrann Josep Maria Jové og aðra embættismenn.

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, sagði stjórnvöld hins vegar hafa verið tilneydd til að grípa til aðgerða en stjórnvöld í Katalóníu eru staðráðin í því að halda atkvæðagreiðsluna, þrátt fyrir bann spænska stjórnarskrárdómstólsins.

Fyrirhugaður kjördagur er 1. október nk.

„Við kjósum að vera frjáls,“ stendur á mótmælaspjaldi sem mótmælandi …
„Við kjósum að vera frjáls,“ stendur á mótmælaspjaldi sem mótmælandi veifar fyrir framan lögreglu. AFP

Aðgerðirnar í dag náðu til 20 ráðuneyta og stofnana en meðal þess sem fannst voru að minnsta kosti 6 milljónir kjörseðla. Þá lýsti Cristóbal Montoro, fjármálaráðherra Spánar, því yfir að spænsk stjórnvöld væru reiðubúin til að taka yfir stóran hluta efnahagsmála Katalóníu.

Carles Puigdemont, forseti Katalóníu, sagði eftir ríkisstjórnarfund að stjórnvöld í Madríd hefðu í reynd svipt héraðið sjálfstjórn og lýst yfir neyðarástandi.

Rajoy hefur gagnrýnt fyrirætlan Katalóna harðlega og m.a. sagt að ekkert lýðræðisríki í heiminum myndi sætta sig við það sem nú stæði fyrir dyrum í héraðinu. Þá hefur hann hvatt Puigdemont til að fara að lögum.

Sérfræðingar segja aukna hættu á átökum milli katalónskra aðskilnaðarsinna og lögregluyfirvalda í kjölfar atburða dagsins.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá BBC.

Carles Puigdemont, forseti Katalóníu, segir spænsk stjórnvöld í raun hafa …
Carles Puigdemont, forseti Katalóníu, segir spænsk stjórnvöld í raun hafa svipt héraðið sjálfstjórn. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert