Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, hæddi í dag Donald Trump Bandaríkjaforseta og sagði hann „andlega brenglaðan“. Því næst varaði Kim við því að Trump muni greiða það dýru verði að hafa hótað Norður-Kóreu eyðileggingu í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á þriðjudag.
Kim skaut hörðum skotum að Trump, sem vakti mikla athygli á þingi Sameinuðu þjóðanna með þeim orðum að Bandaríkin muni „gjöreyðileggja“ Norður-Kóreu, ráðist ríkið á Bandaríkin eða bandamenn þeirra.
Spenna hefur farið stigvaxandi milli Bandaríkjanna og Norður-Kóreu undanfarna mánuði, og herská ræða Trump fylgdi í kjölfar vetnissprengjutilraunar Norður-Kóreu fyrir skemmstu.
„Ég mun láta manninn sem hefur þau forréttinda að vera æðsti yfirmaður Bandaríkjanna greiða ræðu sína dýru verði, fyrir að kalla til gjöreyðingar Norður-Kóreu,“ hefur norður-kóreska ríkisfréttastofan KCNA eftir Kim.
Kim, sem Trump hæddi með því að kalla hann „eldflaugamanninn“ dró þá geðheilsu Trump í efa og sagði þá hegðun hans að nýta allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna til að lýsa yfir vilja til að gjöreyða öðru ríki, vera til vitnis um andlega brenglun.
AFP-fréttastofan segir yfirlýsingu Kim gefa í skyn að hann ætli ekki að láta viðskiptaþvinganir alþjóðasamfélagsins stöðva frekari kjarnorkutilraunir ríkisins.