Leikmenn mótmæla Trump

New England Patriots.
New England Patriots. AFP

Bylgja mótmæla hefur einkennt leiki í ameríska fótboltanum í dag eftir að forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hvatti aðdáendur liða í NFL-deildinni til þess að hundsa leiki liðanna á meðan leikmenn taka þátt í mótmælum.

For­sag­an er sú að á fjölda­fundi í Ala­bama á föstu­dag lét for­set­inn þessi orð falla: „Mynduð þið ekki vilja sjá ein­hvern af þess­um NFL-leik­mönn­um, sem van­v­irða fán­ann, rek­inn? Ef eig­end­ur liðanna myndu bara segja: „Burt með þenn­an tík­ar­son af vell­in­um strax, hann er rek­inn.“

Buffalo Bills.
Buffalo Bills. AFP

Vísaði Trump þar til mót­mæla sem NFL-leikmaður­inn Col­in Kaepernick hóf á síðasta ári til að vekja at­hygli á kynþátta­for­dóm­um. Kaepernick neitaði að standa á fæt­ur þegar þjóðsöng­ur­inn var spilaður. Síðan þá hafa fleiri farið að for­dæmi hans og annaðhvort neitað að standa á fæt­ur eða steytt hnef­ann á meðan þjóðsöng­ur­inn er spilaður.

Hótanir forsetans virðast hafa haft þveröfug áhrif á leikmenn því aldrei áður hafa jafnmargir leikmenn tekið þátt í mótmælunum.

AFP

Fyrstu fjöldamótmæli dagsins fóru fram á Wembley-leikvanginum í London þar sem Jacksonville Jaguars og Baltimore Ravens mættust en fjölmargir leikmenn beggja liða krupu á kné þegar þjóðsöngurinn var leikinn.

Í Nashville stóðu hvorki leikmenn Seattle Seahawks né Tennessee Titans á fætur þegar þjóðsöngurinn var leikinn. Sendu þeir frá sér yfirlýsingu um að þeir geti ekki staðið undir því misrétti sem svart fólk hefur þurft að þola í Bandaríkjunum.

Í Foxborough krupu um 15 leikmenn New England Patriots, en liðið vann Ofurskálina síðast, á meðan þjóðsöngurinn var leikinn. Eigandi liðsins, Robert Kraft, sendi frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að hann væri mjög vonsvikinn vegna ummæla Trump á föstudag en Kraft er einn af þeim sem fjármagnaði kosningabaráttu Trump.

New England Patriots.
New England Patriots. AFP

í Chicago ákvað lið Pittsburgh Steelers að bíða í búningsklefanum þangað til flutningi þjóðsöngsins lauk. Þjálfari Steelers, Mike Tomlin, er svartur og segir hann að þessi ákvörðun liðsins hafi ekki átt að vera vanvirðing heldur miklu frekar vildi liðið koma sér undan þessum kringumstæðum.

Í Detroit tók söngvarinn Rico LaVelle, þátt með leikmönnunum með því að láta sig falla niður á hnén á meðan hann söng þjóðsönginn. Þar líkt og annars staðar krupu leikmenn eða stóðu hönd í hönd með félögum sínum.

Trump tjáði sig um þessi viðbrögð leikmannanna og var sáttur við þá sem stóðu hönd í hönd en sagði hegðun þeirra sem krupu óásættanlega.

AFP
Indianapolis Colts.
Indianapolis Colts. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert