Vaxandi andúðar gætir í garð Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í íþróttaheiminum vegna ummæla sem hann lét falla á fjöldafundi á föstudag. Forsetinn sagði að reka ætti þá leikmenn í NFL-deildinni sem mótmæltu meðan á flutningi þjóðsöngs Bandaríkjanna stæði. BBC greinir frá.
Þekktir leikmenn í ameríska fótboltanum, ásamt körfuboltastjörnunni LeBron James, hafa svarað Trump fullum hálsi á Twitter. Þá segir einn eigandi liðs í NFL-deildinni ummæli Trump vera móðgandi, en hann hefur bara tvíeflst við gagnrýnina og ítrekað orð sín.
Með ummælum sínum vísaði Trump til bylgju mótmæla sem NFL-leikmaðurinn Colin Kaepernick hóf á síðasta ári til að vekja athygli á kynþáttafordómum. Kaepernick neitaði að standa á fætur þegar þjóðsöngurinn var spilaður. Síðan þá hafa fleiri farið að fordæmi hans og annað hvort neitað að standa á fætur eða steytt hnefann á meðan þjóðsöngurinn er spilaður.
„Mynduð þið ekki vilja sjá einhvern af þessum NFL-leikmönnum, sem vanvirða fánann, rekinn? Ef eigendur liðanna myndu bara segja: „Burt með þennan tíkarson af vellinum strax, hann er rekinn,“ sagði Trump á fjöldafundinum og uppskar mikinn fögnuð viðstaddra.
Samband leikmanna í NFL-deildinni segir forsetann hafa farið yfir strikið með ummælum sínum, hann hafi í raun verið að segja leikmönnum að þegja og spila. Forseti sambandsins, hefur sagt að ummæli Trump séu eins og blaut tuska í andlit baráttufólks fyrir borgarlegum réttindum.
Á laugardag dró Trump svo til baka boð í Hvíta húsið sem hann hafði sent á NBA meistarana í Golden State Warriors, eftir að einn liðsmaður, Stephen Curry, sagðist ekki ætla að mæta. Curry sagðist vilja sýna það í verki að hann styddi ekki það sem Trump segði né það sem hann segði ekki þegar það ætti við.
„Heimsókn í Hvíta húsið er talinn mikill heiður fyrir meistarana,“ skrifaði Trump á Twitter eftir að Curry greindi frá ákvörðun sinni. „Stephen Curry hikar, þar af leiðandi dreg ég boðið til baka,“ skrifaði hann jafnframt.
Körfuboltastjarnan LeBron James brást við ummælum Trump á Twitter. „Það var heiður að fara í Hvíta húsið þangað til þú birtist þar,“ skrifaði hann. James sagði jafnframt að það væri ekkert boð lengur til að draga til baka, enda hefði Curry verið búinn að lýsa yfir að hann ætlaði ekki að mæta.