Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir það sýna hræðilegt ábyrgðarleysi af hálfu stjórnvalda í Norður-Kóreu ef þau láta verða af hótunum sínum og gera tilraun með vetnissprengju yfir Kyrrahafinu. AFP-fréttastofan greinir frá.
Mattis lætur þessi orð falla í kjölfar mikils orðaskaks á milli leiðtoga Norður-Kóreu og forseta Bandaríkjanna í tengslum við kjarnorkuáætlun þeirra fyrrnefndu.
Ri Yong-Ho, utanríkisráðherra Norður-Kóreu, lét þau orð falla á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna að það ríki hans gæti gert tilraun með vetnissprengju yfir Kyrrahafinu.
Mattis brást við þessu í flugi á leið til Indlands þar sem hann hyggst meðal annars ræða öryggismál og kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu við leiðtoga landsins í þriggja daga heimsókn. „Það væri hræðilegt ábyrgðarleysi gagnvart heilsu alþjóðasamfélagsins og stöðugleika,“ sagði hann við fjölmiðlamenn.
Mattis vildi aðspurður hins vegar ekki svara því hvort litið yrði á slíka tilraun sem stríðsyfirlýsingu.
Á laugardag var bandarískri sprengjuflugvél í fylgd orrustuþotna hersins flogið nærri austurströnd Norður-Kóreu. Samkvæmt upplýsingum frá Pentagon, varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, var tilgangurinn að sýna fram á hernaðarlega yfirburði Bandaríkjahers umfram vopnabúnað yfirvalda í Pyongyang, höfðuborgar Norður-Kóreu.
Dagana áður hafði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, meðal annars kallað Kim Jong-Un, leiðtoga Norður-Kóreu, brjálæðing og eldflaugamann. Þá hótaði forsetinn því að gjöreyða Norður-Kóreu í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Kim sagði Trump hins vegar andlega brenglaðan og sagði hann koma til með að gjalda það dýru verði að hóta Norður-Kóreu. Í millitíðinni hafði Ri Yong-ho, utanríkisráðherra Norður-Kóreu, líkt bandaríska forsetanum við gjammandi hund.