Sjúkar, ágengar eða drukknar

Merki Sverigedemokraterna/Svíþjóðardemókrata.
Merki Sverigedemokraterna/Svíþjóðardemókrata.

Þingkona Svíþjóðardemókrata hefur sagt sig úr flokknum vegna þöggunar forsvarsmanna flokksins varðandi kynferðislega áreitni og káf sem hún og fleiri konur innan flokksins hafa þurft að þola.

Hanna Wigh, sem hefur setið á þingi fyrir Svíþjóðardemókrata frá árinu 2014 segist ekki lengur geta verið fulltrúi flokksins á þingi en flokkurinn er þjóðernisflokkur og hefur notið mikilla vinsælda í Svíþjóð undanfarin ár. Þetta kemur fram í viðtali við Wigh á TV4 í dag en í kvöld heimildarþátturinn Kalla Fakta, sem byggist á vinnu rannsóknarblaðamanna sænska sjónvarpsins, þar sem fjallað er um þöggunartilburði í slíkum málum.

Í þættinum segir Wigh frá því hvernig flokksfélagi hennar áreitti hana og nokkrar aðrar konur innan flokksins. Ári síðar, 2013, var háttsettur félagi í Svíþjóðardemókrötum sakaður um nauðgun á Almedalen hátíð stjórnmálamanna í Gotlandi. Wigh segir að þá hafi hún viljað ræða við fjölmiðla um kynferðisleg hneykslismál innan flokksins en var sagt að þegja. Maðurinn sagði af sér en fékk síðar annað starf innan flokksins.

Í innanhússskýrslu frá árinu 2016 kemur fram að konurnar sem hafi greint frá kynferðislegri áreitni innan flokksins hafi verið sagðar sjúkar, ágengar eða drukknar. Skýrslunni var lekið til Expressen.

Wigh tjáði sig þá um skýrsluna í sænska sjónvarpinu og var í kjölfarið kölluð á teppið hjá formanni Svíþjóðardemókrata, Jimmie Åkesson.

Hanna Wigh.
Hanna Wigh. Vefur sænska þingsins

„Hann greindi mér frá því að hann væri mjög vonsvikinn og í uppnámi yfir því að ég skyldi hafa rætt við TV4,“ segir Wigh í þættinum Kalla Fakta, samkvæmt frétt Expressen en blaðamenn þar hafa séð þáttinn í forsýningu.

Hún greinir jafnframt frá því að annar þingmaður flokksins, sem hafði áður beðið hana um að þegja um ásakanirnar, hafi beitt hana kynferðislegu ofbeldi.

„Hann hélt um hálsinn á mér og þrýsti mér upp að veggnum. Síðan setti hann lausu hendina inn undir buxurnar mínar og ýtti fingrinum upp. Hann sagði síðan að við ættum að hittast fyrir utan þingsalinn við rétt tækifæri,“ segir Wigh í þættinum.

Hún tilkynnti ekki atvikið til lögreglu þar sem hún óttaðist afleiðingarnar. Hún segir í viðtali við Expressen í dag að hún hafi sagt yfirmönnum flokksins frá þessu en ekki nafngreint manninn. „Þeir vissu það samt sem áður,“ segir hún.

Hann er friðhelgur

Per Vegelow, fyrrverandi aðstoðaröryggisstjóri Svíþjóðardemókrata, segir í viðtali við Kalla Fakta að honum hafi verið sagt að gera sem minnst úr ásökunum og lýsir því í þættinum að þingmaðurinn sem er sakaður um kynferðislegt ofbeldi sé ósnertanlegur.

Jimmie Åkesson formaður Svíþjóðardemókrata
Jimmie Åkesson formaður Svíþjóðardemókrata AFP

„Hann er friðhelgur og þú getur ekki snert á honum. Ég yrði afar undrandi ef flokksforystan hefur ekki vitað um þetta. Ég á þar við efstu lög flokksforystunnar þar sem hann var sjálfur í mörg ár,“ hefur Expressen eftir Vegelow.

Þegar fréttamaður Kalla Fakta ber þessar ásakanir undir Jimmie Åkesson segir hann að hann hafi aldrei heyrt af þessu.

„Ég hef ekki þessar upplýsingar og ég ætla ekki að standa hér og ræða þetta við þig. Sendu mér afmarkaðar spurningar og þá getum við, ef við teljum að ég eigi að tjá mig um þetta, gefið út yfirlýsingu eða einhver annar.“

Ritari flokksins, Richard Jomshof, segir í samtali við Kalla Fakta að hann vonist til þess að þetta sé ekki rétt.

„Við höfum gætt okkar sérstaklega vel á því að fara ekki á bak við hvert annað. Við eigum að hafa flokkinn opinn og gagnsæjan.“

Upplýsingafulltrúi Svíþjóðardemókrata, Henrik Vinge, segir í samtali við Aftonbladet í dag að hann hafi ekki séð þáttinn en neitar því að hann hafi tekið þátt í að hylma yfir ásakanir um kynferðislegt ofbeldi innan flokksins.

SVT

TV4

Expressen

Aftonbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka