Kjöraðstæður fyrir hættulegan misskilning

Donald Trump hatar ekki að tjá sig á Twitter.
Donald Trump hatar ekki að tjá sig á Twitter. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, gæti verið kominn á hættulega braut með ítrekuðum færslum sínum á Twitter, sérstaklega nýrri færslu sem stjórnvöld í Norður-Kóreu segjast túlka sem stríðsyfirlýsingu. Þetta er mat pólitískra álitsgjafa AFP-fréttastofunnar.

Í Twitter-færslunni sem um ræðir sagði forsetinn að ef Ri Yong-Ho, utanríkisráðherra Norður-Kóreu, héldi áfram að bergmála hugsanir Kim Jong-Un, þá yrðu þeir ekki mikið lengur á meðal vor. Færsluna birti hann skömmu eftir að Ri ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna á laugardag.

Álitsgjafarnir vilja meina að með þessari hegðun sinni hafi Trump ýtt harkalega við stjórnvöldum ríkis sem lengi hafi verið á ystu nöf, en séu nú alvarlega farin að íhuga möguleikann á alvöru átökum. Dálæti forsetans á Twitter og lausmælgi hans á þeim vettvangi geti skapað kjöraðstæður fyrir hættulegan misskilning, sérstaklega þegar persónulegar deilur hans við Kim Jong-Un virðast vera að stigmagnast í gegnum samskiptaforritið.

Fjöl­miðlafull­trúi Hvíta húss­ins hefur reyndar alfarið hafnað því að Banda­rík­in hafi lýst yfir stríði gegn Norður-Kór­eu og seg­ir ásakanir þess efn­is frá­leitar. Skaðinn gæti engu að síður verið skeður að mati álitsgjafa, enda taki stjórnvöld í Norður-Kóreu mjög alvarlega hverskyns ummæli sem gætu talist hótanir í garð leiðtoga ríkisins.

„Ef við förum í stríð þá verður það út af misskilningi eða mistúlkun,“ sagði Robert Kelly, prófessor í stjórnmálafræði við Pusan ríkisháskólann. „Það er í raun og veru engin ástæða til átaka.“

Spennan heldur hins vegar áfram að magnast. Stjórnvöld í Norður-Kóreu segjast vera komin langleiðina með því að fullkomna kjarnorku- og eldflaugaáætlun sína, en síðustu tveimur eldflaugaskotum hefur verið skotið yfir Japan sem líst ekki orðið á blikuna.

Kjarnorkutilraunir Norður-Kóreu hafa orðið til þess að kínverskir fræðimenn eru opinberlega farnir að kalla eftir endurskoðun á stuðningi yfirvalda í Beijing við stjórnvöld í Pyongyang, höfuðborgar Norður-Kóreu. En stjórnvöld í höfuðborginni hafa ítrekað virt að vettugi allar tilraunir Kínverja til að leysa deiluna með samtali, að kemur fram í grein Jia Qingguo, prófessors við Háskólann í Peking. Greinin hans lauk á þessum orðum: „Það er tími til kominn að búast við hinu versta í Norður-Kóreu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert