Evrópusambandið miðli málum í Katalóníudeilunni

Stuðningsmenn sjálfstæðrar Katalóníu á fundi í Barcelona.
Stuðningsmenn sjálfstæðrar Katalóníu á fundi í Barcelona. AFP

Ada Colau, borgarstjóri Barcelona, biðlaði í dag til Evrópusambandsins um að miðla málum í deilunni vegna fyrirhugaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu.

„Það er skylda mín sem borgarstjóra [...] að hvetja Evrópuráðið til að opna á miðlunaraðgerðir milli ríkisstjórna Spánar og Katalóníu til að leita lýðræðislegrar lausnar á deilunni,“ hefur Guardian eftir Colau.

Yfirvöld í Barcelona „vilja ekki árekstur með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ég er þess sannfærð að evrópskir félagar okkar vilja það ekki heldur,“ sagði hún.

Colau er sjálf mótfallin sjálfstæði, en fordæmir aðgerðir Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar. Segir hún ósveigjanleika ríkisstjórnar Spánar hafa gert pattstöðuna við stjórnvöld í Katalóníu enn verri.

Lagaaðgerðir gegn katalónskum embættismönnum muni aðeins auka spennuna og koma í veg fyrir að nokkur lausn finnist á deilunni.

„Ríkisstjórn Spánar hefur leyft Katalóníudeilunni að þróast úr innanríkisdeilu yfir í evrópska deilu,“ segir Colau og kveður Evrópu ekki geta staðið hjá varðandi málefni Katalóníu.

„Að verja grundvallarréttindi íbúa Katalóníu gegn kúgun spænska ríkisins er það sama og að verja réttindi spænskra og evrópskra borgara.“

Stjórnvöld í Katalóníu hafa heitið því að fyrirhugaðar kosningar fari fram á sunnudag, þrátt fyrir aðgerðir stjórnvalda í Madrid sem vilja koma í veg fyrir atkvæðagreiðsluna, en dómstóll hefur þegar úrskurðað að hún brjóti í bága við stjórnarskrá landsins.

Ekki hefur stærri krísa komið upp í spænskum stjórnmálum frá því að einræðisherrann Francisco Franco lét af völdum fyrir fjórum áratugum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert