Aldraðir ökumenn sívaxandi vandamál

Á námskeiði fyrir aldraða ökumenn. Aldraðir valda meira en fjórðungi …
Á námskeiði fyrir aldraða ökumenn. Aldraðir valda meira en fjórðungi allra banaslysa í umferðinni í Japan. AFP

Röð banaslysa í umferðinni af völdum aldraðra ökumanna hefur orðið til þess að yfirvöld í Japan freista þess nú að gera allt sem í valdi þeirra stendur til að takast á við vandamál sem sérfræðingar segja að muni stækka í takt við hækkandi aldur japönsku þjóðarinnar.

Ökumenn 65 ára og eldri urðu valdir að 965 banaslysum í umferðinni árið 2016 en það er meira en fjórðungur allra banaslysa sem urðu í landinu það árið. Í einu versta tilfellinu ók 87 ára maður inn í hóp af skólabörnum með þeim afleiðingum að sex ára barn lést og fleiri særðust.

Í friðsælli sveit fyrir utan bæinn Kanuma, norður af Tókýó, á akbraut sem liðast um hrísgrjónaakra og fjalllendi, hefur hópur eldri ökumanna tekið málin í eigin hendur og er við það að ljúka upprifjunarnámskeiði í akstri.

Eftirlaunaþegarnir stýra ökutækjum sínum varlega milli keila á meðan leiðbeinendurnir kalla fyrirmæli í hátalara inn um opnar bílrúðurnar. Hátæknimælar nema viðbragðstímann þegar ökumennirnir eru látnir snarhemla.

Emiko Takahashi, 73 ára, viðurkennir að hafa misst sjálfsöryggið bak við stýrið þegar hún eltist. „Það er ástæðan fyrir því að ég kom hingað,“ segir hún. Hún sé tilneydd að aka eiginmanni sínum, sem er sjö árum eldri og sjúklingar, á spítala á hverjum degi.

Takahashi segir að hún hafi misst einbeitinguna með aldrinum og að hið ósjálfráða viðbragð þegar eitthvað kemur upp á sé ekki eins og það var. „Ég er orðin hæg,“ játar hún.

Ek „þar til ég dey“

Banaslys í umferðinni af völdum aldraðra nema 28,3% af heildarfjöldanum. Hlutfallið var 17,9% fyrir áratug. Það þarf ekki að undra að menn séu uggandi yfir þróuninni, þar sem aldraðir eru taldir munu nema 40% japönsku þjóðarinnar árið 2060.

Sums staðar hafa yfirvöld gripið til frumlegra ráða til að hvetja einhverja af 4,8 milljónum ökumanna eldri en 75 ára til að skila inn ökuskírteininu sínu. Þar má m.a. nefna fyrirheit um ódýrari útfarir og afslátt af núðlum, auk hefðbundinna meðala á borð við ódýra eða ókeypis leigubíla og strætóferðir.

Mælar nema viðbragðstíma nemenda. Vandinn felst m.a. í því að …
Mælar nema viðbragðstíma nemenda. Vandinn felst m.a. í því að aldraðir eru lengur að bregðast við þegar eitthvað kemur uppá en hafa á sama tíma ofurtrú á getu sinni til að afstýra slysum. AFP

Hinn 67 jára Kiyotaka Ukita, sem er nemandi á námskeiðinu, er hins vegar ekki par hrifinn af þessum aðferðum yfirvalda.

„Ókeypis strætómiðar eru alls ekki til þess fallnir að fá fólk til að skila inn skírteininu,“ segir Ukita. „Kosturinn við að aka er að þú getur farið hvert sem er og hvenær sem er. Ég vonast til að aka þar til ég dey.“

Flest slys sem verða af völdum aldraðra ökumanna verða þegar þeir ruglast á bensíngjöfinni og bremsunni eða missa stjórn á stýrinu. Lögreglan segir vandann aðkallandi.

Masato Zenyouji, leiðbeinandi við Japan Automobile Federation, segir vandamálið m.a. liggja í því að með aldrinum glati ökumenn getunni til að taka ákvörðun umsvifalaust, s.s. að negla niður bremsurnar.

„Þegar hraðinn eykst minnkar sjónsvið þeirra, sem getur valdið slysum,“ segir hann.

Á námskeiðinu freista leiðbeinendurnir þess að draga úr líkunum með því að láta nemendurna gera líkamlegar æfingar og teygjur, auk æfinga til að viðhalda skilningarvitunum.

Önnur orsök slysa er ofursjálfstraust þeirra sem hafa margra áratuga akstursreynslu, segir Masabumi Tokoro, prófessor við Rissho-háskóla. Samkvæmt rannsóknum Tokoro telja 10% japanskra ökumanna að þeir geti afstýrt slysi en hlutfallið reyndist 53% meðal 75 ára og eldri.

„[Aldraðir] telja að þeir geti afstýrt slysum með aksturshæfileikum sínum,“ segir hann.

Stjórnvöld hafa gripið til lagasetninga til að takast á við vandann og samþykktu t.d. í mars sl. að gera þær kröfur til ökumanna eldri en 75 ára að þeir standist ákveðin skynpróf áður en þeir geta endurnýjað skírteinin sín.

Þá hafa bílaframleiðendur lagt sitt af mörkunum með því að kynna til sögunnar búnað sem grípur inn í ef ökumaður þrýstir niður á bensíngjöfina í stað bremsunnar. Búnaðinn er hins vegar aðeins að finna í um þriðjungi nýrra bíla.

Það eru ekki allir á því að gefa upp ökuskírteinið …
Það eru ekki allir á því að gefa upp ökuskírteinið fyrir loforð um ódýrari útför eða afslátt af núðlum. AFP

Ekki valkostur að hætta að keyra

Tokoro telur að vandamálið verði ekki leyst með skynprófum eða með því að múta öldruðum ökumönnum til að láta ökuskírteinin sín af hendi.

„Það er óhentugt í strjálbýli í Japan og þú getur ekkert án þess að hafa bíl. Þess vegna munu [aldraðir ökumenn] ekki gefa upp ökuskírteinin sín,“ segir prófessorinn.

Hann segir að stjórnvöld verði að stuðla að innviðum sem geri öldruðum raunverulega kleift að lifa hefðbundnu lífi eftir að hafa hætt að aka. Hann nefnir ódýra leigubílaþjónustu og átak til að hvetja aldraða til að flytja í þéttbýli.

Japanska tæknifyrirtækið DeNA hefur verið að prófa sjálfkeyrandi bíla, sem gæti verið ný lausn fyrir aldraða á strjálbýlum svæðum fyrir 2020.

Á akbrautinni segist Takahashi hins vegar vonast til að geta ekið þar til hún verður 85 ára. „Ég held að ég geti haldið áfram að aka ef ég læri og öðlast sjálfstraust. Ég hætti að keyra ef ég missi heilsuna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert