Hópar fólks hafa þegar safnast saman fyrir utan kjörstaði í Katalóníu, en sjálfstæðissinnar í héraðinu standa fyrir kosningum í dag um sjálfstæði Katalóníu. Yfirvöld í héraðinu segja kjörkassa vera tilbúna og búast við að mikill fjöldi Katalóníubúa mæti á kjörstað.
Spænska óeirðalögreglan hefur lokað af kjörstað í bænum Girona þar sem leiðtogi aðskilnaðarsinna átti að kjósa og að sögn AFP-fréttastofunnar kom til einhverra átaka er lögregla kom á staðinn. Er lögregla einnig sögð hafa brotið sér leið inn á kjörstað í Girona eftir að hafa áður umkringt húsið.
Þá hefur lögregla lagt hald á kjörkassa í Barcelona að því er spænska innanríkisráðuneytið greindi frá á Twitter og birti mynd af kjörkössum.
Stjórnlagadómstóll Spánar hefur dæmt kosninguna ólöglega og stjórnvöld í Madrid hafa heitið því að koma í veg fyrir kosninguna.
Spænska stjórnin hefur sent þúsundir lögreglumanna til Barcelona til að koma í veg fyrir atkvæðagreiðsluna og í gær lokaði lögreglan 1.300 af 2.315 skólum í Katalóníu á Spáni sem nota átti sem kjörstaði.
Þúsundir aðgerðasinna komu sér hins vegar fyrir í rúmlega 160 skólum og gerðu ráð fyrir að dvelja þar í nótt til að reyna að hindra að yfirvöld loki skólunum.
Sagði AFP kennara, foreldra og námsmenn vera í hópi þeirra sem tóku skólana yfir, en fólkið hefur ekki farið úr skólunum frá því á föstudag og tók með sér svefnpoka og gisti m.a. í íþróttasölum skólanna.
BBC segir lögreglu fullyrða að ekki verði leyft að opna kjörstaðina og að þeir sem þar dvelja nú þegar verði reknir á brott.
Í sumum svæðum í héraðinu hafa bændur komið traktorum sínum fyrir á vegum fyrir framan kjörstaði og hlið á skólalóðum hafa verið fjarlægð til að gera yfirvöldum erfiðara að loka byggingunum.
Skipuleggendur kosninganna höfðu hvatt kjósendur til að mæta á kjörstað strax klukkan fimm í morgun að staðartíma og bíða þar til kjörstaðir yrðu opnaðir um níuleytið. Þeir hvöttu til friðsamlegra mótmæla við aðgerðum lögreglu.