Lítil gagnrýni leiðtoga Evrópu

Talsverð gagnrýni hefur komið fram á það ofbeldi sem lögreglan …
Talsverð gagnrýni hefur komið fram á það ofbeldi sem lögreglan á Spáni beitti í Katalóníu í dag. Ráðamenn í Evrópu hafa hins vegar haldið að sér höndum og ekki viljað fordæma yfirvöld á Spáni vegna málsins. AFP

Guy Verhofstadt sem fer fyr­ir frjáls­lynd­is­hópn­um á Evr­ópuþing­inu og samninganefnd Evrópusambandsins vegna útgöngu Breta úr sambandinu var áðan fyrsti hátt setti embættismaðurinn hjá Evrópusambandinu sem gagnrýndi ofbeldið sem átti sér stað í Katalóníu í dag vegna kosninga um sjálfstæði héraðsins.

Að öðru leyti hefur verið lítið um yfirlýsingar frá hátt settum embættismönnum innan Evrópusambandsins eða öðrum ráðamönnum í Evrópu varðandi ofbeldið í Katalóníu í dag. Þeir sem gagnrýna það fordæma einungis ofbeldið, en hafa ekki viljað fordæma beint stjórnvöld á Spáni.

Sagði Verhofstadt í yfirlýsingu á Twitter að hann vilddi ekki skipta sér af innanríkismálum Spánar, en að hann fordæmi það sem gerðist í Katalóníu í dag.

Sagði hann að stjórnvöld á sjálfstjórnarsvæðinu hefðu ákveðið að láta verða af atkvæðagreiðslunni þrátt fyrir dóm hæstaréttar landsins um að atkvæðagreiðslan væri ólögleg. Þá þyrfti líka að stoppa allt ofbeldi sem hefði átt sér stað.

Verhofstadt lagði áherslu á að innan Evrópusambandsins þyrfti að finna lausnir á málum með pólitísku samtali og með virðingu fyrir stjórnarskrá viðkomandi lands. Þannig væri samningaleið eina leiðin í svona máli og þá þyrfti að fá alla aðila málsins að borðinu. Það ætti einnig við um stjórnarandstöðuna á katalónska þinginu.

Fleiri ráðmenn í Evrópu hafa fordæmt ofbeldið. Þannig sagði Charels Michel, forsætisráðherra Belgíu, að ofbeldi væri aldrei lausnin. Nicola Sturgeon, leiðtogi Skotlands, sagði að óháð skoðunum um sjálfstæði ætti að fordæma þá uppákomu sem varð í dag á Spáni.

Breska utanríkisráðuneytið sendi aftur á móti frá sér tilkynningu þar sem tekið var fram að atkvæðagreiðslan væri málefni Spánar og að rétt væri að standa vörð um spænsk lög og stjórnarskrá. Þá sagði utanríkisráðherra Serbíu að Spánn væri einn af bestu vinum Serbíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert