Þetta vitum við um árásina í Las Vegas

Að minnsta kosti 50 eru látnir eftir árásina og yfir …
Að minnsta kosti 50 eru látnir eftir árásina og yfir 400 slasaðir. AFP

Að minnsta kosti 58 eru látnir og yfir 500 slasaðir eftir að byssumaður hóf skothríð frá Mandalay Bay hótelinu í Las Vegas og skaut á tónleikagesti á kántrítónlistarhátíð sem fór fram við hlið hótelsins.

Þetta er það sem við vitum um árásina að svo stöddu:

Yfir 22 þúsund manns voru á tónleikastaðnum, þar sem Route 91 Harvest tónlistarhátíðin fór fram. Kántrístjarnan Jason Alden var á sviðinu þegar árásarmaðurinn hóf skothríðina klukkan 22:08 að staðartíma, eða rétt rúmlega 5 að íslenskum tíma.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er talið að árásarmaðurinn hafi verið einn að verki, en hann skaut á tónleikagesti frá 32. hæð Mandalay Bay hótelsins. Robert Hayes, slökkviliðsmaður frá Los Angeles, var á tónleikunum og sagði í samtali við AFP-fréttastofuna að tónleikastaðurinn hafi verið eins og stríðsvettvangur.

Hér má sjá hvar árásarmaðurinn var staddur og hvert hann …
Hér má sjá hvar árásarmaðurinn var staddur og hvert hann skaut. mbl

Vitað er að minnsta kosti 58 manns eru látnir eftir árásina, en 505 voru fluttir á sjúkrahús. Yfirvöld hafa sent út neyðarkall til blóðgjafa því blóðbirgðir á sjúkrahúsum borgarinnar eru að verða uppurnar.

Hver er árásarmaðurinn? 

Árásarmaðurinn hefur verið nafngreindur sem Stephen Craic Paddock, 64 ára gamall hvítur karlmaður frá Mesquite í Nevada, um 130 kílómetra norðaustur af Las Vegas. Paddock var endurskoðandi en sestur í helgan stein. Hann virðist ekki hafa átt neina sögu um ofbeldi og var með hreint sakavottorð.

Fjölskylda Paddock fékk áfall þegar hún frétti að hann hefði myrt yfir 50 manns í mannskæðustu árás Bandaríkjanna, sem Ríki íslam hefur lýst yfir að hafi verið framkvæmd af einum „hermanna“ sinna sem hafi tekið upp íslamstrú fyrir nokkrum mánuðum.

Bróðir hans, Eric Paddock, sagði í samtali við CBS að hann vissi ekki til þess að bróðir sinn hefði haft nein tengsl við trúarlega eða pólitíska hópa.

Þá hefði hann ekki verið ákafur byssueigandi þó hann hafi haft veiðileyfi í Alaska þar sem vinsælt er að veiða elgi og birni. „Hvar fékk hann þessi sjálfvirku vopn? Hann hefur engan bakgrunn úr hernum eða neitt þvíumlíkt. Hann bjó í húsi Mesquite, keyrði til Las Vegas og stundaði fjárhættuspil. Hann gerði hluti. Borðaði burrito,“ sagði bróðirinn í viðtalinu.

Sérsveitarmenn fundu Paddock látinn á hótelherbergi sínu eftir að þeir brutust þangað inn. Talið er að hann hafi svipt sig lífi. Lögreglan fann að minnsta kosti átta riffla í herbergi hans. 

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur sent innilegar samúðarkveðjur til fórnarlamba árásarinnar og fjölskyldna þeirra. Hann ávarpar nú Bandarísku þjóðina frá Hvíta húsinu. Þá hefur Francis páfi sagt að hann sé afar sorgmæddur yfir þessum glórulausa harmleik.

Hér sést Mandalay Bay hótelið í bakgrunni.
Hér sést Mandalay Bay hótelið í bakgrunni. AFP

Mannskæðasta árásin í Bandaríkjunum

Skotárásin í Las Vegas er sú mannskæðasta í Bandaríkjunum fram til þessa þrátt fyrir að endanlegt mannfall liggi ekki fyrir, en óttast er að fleiri kunni að látast af sárum sínum.

Önnur mannskæðasta árásin eru fjöldamorðin á næturklúbbnum Pulse í Orlando í Flórída í júní í fyrra, þar sem 49 létust.

Þriðja mannskæðasta árásin átti sér stað í Virginia Tech háskólanum árið 2007 þegar nemandi við skólann skaut 32 samnemendur sína áður en hann svipti sig lífi.

Árásin er sú mannskæðasta í Bandaríkjunum fram til þessa.
Árásin er sú mannskæðasta í Bandaríkjunum fram til þessa. mbl
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka