Héraðsstjóri Katalóníu, Carles Puigdemont, segir að hann muni lýsa yfir sjálfstæði Katalóníu eftir að ljóst var að 90% þeirra sem tóku þátt svöruðu spurningunni um sjálfstæði játandi. Hann hvetur Evrópusambandið til þess að bregðast við í stað þess að líta undan vegna ofbeldisins sem beitt hefur verið af hálfu lögreglu. Alls leituðu 844 sér læknisaðstoðar en af þeim voru rúmlega 90 með áverka. Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneyti Spánar þurftu 33 lögreglumenn að leita sér læknisaðstoðar.
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, sagði að lögin hefðu haft sigur að lokum en hæstiréttur Spánar hefur sagt kosningu Katalóníu ólöglega. Rajoy sagði yfirvöld í Katalóníu bera ábyrgð á óeirðunum og sagði kosninguna til þess fallna að ýta undir átök. Hann sagðist opinn fyrir því að ræða við yfirvöld Katalóníu um að auka sjálfstjórn þeirra á héraðinu en einungis í samræmi við lög og lýðræði landsins.