Notaði hann búnað til að skjóta hraðar?

Tveir brotnir gluggar á 32. hæð Mandalay-hótelsins þaðan sem Paddock …
Tveir brotnir gluggar á 32. hæð Mandalay-hótelsins þaðan sem Paddock hóf skothríð sína. AFP

Ekki hefur verið staðfest hvers konar skotvopni eða -vopnum Stephen Paddock beitti í skotárásinni í Las Vegas. Alls eru 58 látnir eftir árásina og um 500 særðir.

Paddock skaut fjölmörgum skotum á skömmum tíma sem gefur til kynna að hann hafi notað annaðhvort sjálfvirkan árásarriffil við ódæðið, en strangar reglur eru yfir notkun þeirra, eða að hann hafi sett búnað á hálfsjálfvirkan árásarriffil til að hann myndi skjóta hraðar. Þetta sagði Massad Ayoob, sérfræðingur í skotvopnum, í samtali við The Guardian.

Tónleikagestir halda á einu fórnarlambanna.
Tónleikagestir halda á einu fórnarlambanna. AFP

Fregnir hafa borist um að að minnsta kosti tíu rifflar hafi fundist á hótelherbergi hans en þær hafa ekki verið staðfestar.

„Árásin var framkvæmd hraðar en nánast nokkur manneskja getur náð með því að nota hálfsjálfvirkan riffil,“ sagði Ayoob.

Strangar reglur eru um notkun vopna sem eru að fullu sjálfvirk en þau geta skotið úr mörgum skothylkjum ef þrýst er einu sinni á gikkinn. Fyrir vikið teljast slík vopn vera dýrir safngripir sem sjaldan eru notaðir við glæpi.

Hálfsjálfvirkar byssur, þar sem hægt er að skjóta úr aðeins einu skothylki með því að þrýsta einu sinni á gikkinn, eru aftur á móti fáanlegar víða. Sala á slíkum byssum er leyfileg í Nevada.

Lögreglumenn snúa aftur til farartækja sinna eftir að hafa staðið …
Lögreglumenn snúa aftur til farartækja sinna eftir að hafa staðið vörð við hótelið. AFP

Með því að hlusta á myndefni frá árásinni sagði Ayoob að byssuskotin hefðu ekki hljómað stöðug eins og venjan væri frá sjálfvirkum byssum á borð við M-16 og AK-47. Hann telur að Paddock hafi því hugsanlega notað búnað sem kallast Hellfire eða samskonar búnað sem er settur á hálfsjálfvirka riffla til að þeir skjóti hraðar. Búnaðurinn er löglegur en hefur hingað til sjaldan verið notaður af árásarmönnum.

Hvíta húsið hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem kemur fram að núna sé ekki rétti tímapunkturinn að ræða um að herða byssulöggjöf landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka