Samtök sem berjast gegn kjarnorkuvopnavá hljóta friðarverðlaun Nóbels í ár (International Campaign to Abolish Nuclear Weapons ICAN). Berit Reiss-Andersen, formaður nefndarinnar sem veitir friðarverðlaun Nóbels, kynnti niðurstöðu nefndarinnar í Ósló klukkan 9 að íslenskum tíma.
Friðarverðlaunin voru fyrst veitt árið 1901 og vekja jafnan umtal. Þau eru veitt í Ósló en ekki í Stokkhólmi eins og hin nóbelsverðlaunin.
122 ríki samþykktu sáttmála um bann við kjarnorkuvopnum í júlí á sérstakri ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Sáttmálinn getur leitt til lagalega bindandi alþjóðasamnings um bann við kjarnorkuvopnum. Stuðningsmenn þessa alþjóðlega samkomulags vonast til að það muni leiða til endanlegrar útrýmingar á öllum kjarnorkuvopnum.
Samkvæmt vef ICAN, Samtaka um alþjóðlega herferð til afnáms kjarnavopna, styður Ísland ekki lagalega bindandi alþjóðasamning um bann við kjarnorkuvopnum. Í árslok 2016 greiddi Ísland atkvæði gegn því að hefja skuli undirbúning og gerð á samningnum, sem nú hefur litið dagsins ljós. Á vefnum segir að Ísland haldi fram að bandarísk kjarnavopn séu nauðsynleg fyrir öryggi landsins.
Öll ríkin sem eiga kjarnavopn og önnur ríki, sem annaðhvort falla undir vernd þeirra eða geyma kjarnavopn innan sinna landamæra, tóku ekki þátt í viðræðunum. Bandaríkin leiddu gagnrýnina á samkomulagið og bentu meðal annars á kjarnorkuvopn Norður-Kóreu sem eina af ástæðum þess að halda í eigin vopn. Bretland fór ekki í viðræður þrátt fyrir kröfur ríkisstjórnarinnar til stuðnings marghliða afvopnun.