Gæti fyllt ráðhúsið í Ósló 150 sinnum

Mannen hefur oft hótað að hrynja. Gerir hann það í …
Mannen hefur oft hótað að hrynja. Gerir hann það í þetta skiptið? Kort/Google maps

Mann­en, eða Maður­inn, er býsna nafn­togað fjall í Horg­heim í sveit­ar­fé­lag­inu Rauma í fylki sem Snorri Sturlu­son skrifaði sem Mæri og Raumsdal í kon­unga­sög­um Heimskringlu en heit­ir í Nor­egi sam­tím­ans Møre og Roms­dal og er á vest­ur­strönd Nor­egs.

Mann­en er 1.294 metra hár og nýt­ur þess vafa­sama heiðurs að vera vaktaðasta fjall Nor­egs en jarðfræðing­ar á veg­um Norsku vatna- og orku­mála­stofn­un­ar­inn­ar (n. Nor­ges vass­drags- og energidirek­torat, NVE), eins kon­ar Lands­virkj­un­ar Nor­egs, fylgj­ast nú nótt sem nýt­an dag með þessu nátt­úru­fyr­ir­brigði en hrynji Mann­en all­ur ofan í dal­inn fyr­ir neðan yrði rúm­mál þeirr­ar skriðu það mesta sem nokkru sinni hef­ur orðið í Nor­egi á sögu­tíma og 25 sinn­um stærra en hinar frægu ham­far­ir í Nor­d­fjord aðfaranótt 13. sept­em­ber 1936 þegar rúm­ir millj­ón rúm­metr­ar grjóts hrundu ofan í fjörðinn og ollu 74 metra hárri flóðbylgju sem kostaði 73 manns­líf.

Ráðhúsið í Ósló.
Ráðhúsið í Ósló. mbl.is/​Atli Steinn

Rumskaði haustið 2014

Í októ­ber 2014 rumskaði Mann­en ræki­lega og mæld­ist mik­il hreyf­ing í fjall­inu. Brugðu al­manna­varn­ir og lög­regla skjótt við og rýmdu íbúðabyggð fyr­ir neðan en á hættu­svæðinu búa um 1.500 manns. Maður­inn sofnaði þó á ný í það skiptið en at­b­urðarás­in end­ur­tók sig 2015 og í fyrra. Nú er svo komið að gliðnun í fjall­inu hef­ur mælst um og yfir tíu senti­metr­ar á sól­ar­hring síðan á föstu­dag í síðustu viku, eða í rétta viku.

„Tíu senti­metr­ar er býsna mik­il hreyf­ing,“ seg­ir Brigt Sam­dal, svæðis­stjóri NVE í Mæri og Raumsdal, í sam­tali við norska rík­is­út­varpið NRK en stofn­un­in hef­ur síðan á föstu­dags­morg­un í síðustu viku dælt 5.400 lítr­um af vatni á klukku­stund ofan í sprung­ur á fjall­inu til þess að hraða ferl­inu og binda enda á það ótta­blandna ástand sem íbú­ar á svæðinu hafa lifað við um ára­tuga skeið.

Óvíst er að meira en stak­ir hlut­ar Mann­en falli í einu og er þar lík­leg­ast­ur kandí­dat talið hamra­belti sem geng­ur und­ir nafn­inu Ves­lemann­en eða Litli-Maður­inn, en fari allt á versta veg og Mann­en taki á rás í öllu sínu veldi yrði þar um að ræða 25 millj­ón­ir rúm­metra af grjóti. Til að setja slíkt magn í sam­hengi nægði það rúm­mál til þess að fylla ráðhúsið í Ósló 150 sinn­um.

Skýr­ing­ar­mynd­band og um­fjöll­un dag­blaðsins VG

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert