Flugur hópast saman á skítahrúgum, skólp flæðir upp úr holræsunum og í loftinu hangir megn fnykur. Velkomin til Awas Vikas, eins af fínustu hverfum Gonda; borgar sem nýtur þess vafasama heiðurs að vera skítugasta borg Indlands.
Jafnvel í dýrum hverfum á borð við Awas Vikas eru sorphirðubifreiðar sjaldséðir, rusl á víð og dreif á grænum svæðum og íbúar löngu óþreyjufullir eftir því að stjórnmálamenn hætti að deila og grípi til aðgerða.
Gonda, sem stendur í 125 km fjarlægð frá Lucknow, höfuðborg Uttar Pradesh, var áður þekktust fyrir að vera áningarstaður ferðalanga á leið til Nepal eða að skoða hofin á svæðinu. Hún varð hins vegar alræmd í maí sl. þegar hún varð neðst á lista inverskra stjórnvalda yfir hreinustu borgir landsins.
Umrædd rannsókn náði til 434 borga en til skoðunar voru m.a. salernisaðstaða, sorphirða, innviðir og fleira.
Í Gonda há ökumenn og gangandi vegfarendur daglega baráttu við að fikra sig áfram milli hauga af matarafgöngum, plastflöskum og dýrasaur. Kýrnar sem ganga lausar í borginni elska ruslahaugana en íbúarnir eru við það að gefast upp.
„Skíturinn og fýlan hafa gert okkur alræmd um allt land,“ segir Durgesh Mishra og bendir á gjótu í götunni við húsið hans sem er full af skítugu vatni og moskítóflugum.
„Þetta er virkilega ömurlegt ástand. Við höfum verið stimpluð skítugasta borg Indlands. Horfðu bara í kringum þig og þú sérð að það er rétt. Þú getur ekki ímyndað þér hvernig við búum hérna,“ segir hann.
Flestir íbúa vonast til þess að hinn vafasami heiður verði til þess að stjórnmálamennirnir skammmist sín og taki til sinna mála; láti afskiptaleysi og spillingu víkja fyrir stærri hagsmunum.
„Þau vandamál sem við glímum við er varða starfsmannaskort og uppbyggingu innviða eru afleiðing óskipulagðar þróunar síðustu tíu ár,“ segir athafna- og stjórnmálamaðurinn Rajiv Rastogi.
Pólitískar erjur milli borgaryfirvalda og ríkisyfirvalda í Uttar Pradesh hafa einnig orðið til þess að hindra framgang ýmissa verkefna. Ummerkin eru alls staðar.
Byggingar hafa verið yfirgefnar og látnar grotna niður á sama tíma og garðar og tjarnir hafa umbreyst í ruslahauga. Þeir sem hafa efni á því ráða menn til að hreinsa rusl frá húsunum sínum en því er einfaldlega komið fyrir annars staðar í borginni.
Sumir segja Kanshiram óheilnæmasta borgarhluta skítugustu borgar Indlands.
„Við búum í pestarbæli. Sjúkdómar á borð við kóleru eru daglegt brauð,“ segir Sushila Tewari og reynir að berja flugurnar frá ruslapytt nærri heimili sínu. Pytturinn var áður tjörn.
„Það líða margir dagar án þess að við sjáum borgarstarfsmann. Þegar flökkudýr drepast og liggja hér og rotna neyðumst við stundum til þess að grafa þau sjálf.“
Kirti Vardhan Singh, þingmaður frá svæðinu, segist hafa fengið flóð símtala og skilaboða frá því að niðurstöður stjórnvalda lágu fyrir.
„Þetta var afar vandræðalegt,“ segir hann. „Ég útskýrði fyrir eins mörgum og ég gat að sem þingmaður hefði ég ekkert um þau mál að segja er varða staðinn; óstjórnina, aðgerðaleysið eða spillinguna síðasta áratuginn.“
Singh viðurkennir að Gonda sé skítug en efast um að hún sé sú skítugasta í landinu.
„Ég held að hún hafi fengið þann stimpil vegna skorts á samvinnu og samskiptum milli rannsóknarteymisins og staðaryfirvalda,“ segir hann.
Hann telur að sömu sögu sé að segja af Gonda og mörgum öðrum indverskum borgum; borgum sem hafa vaxið hratt síðustu ár, án skipulags eða regluverks.
J.B Singh, friðdómari í Gonda, viðurkennir að borgin eigi við vanda að etja en segist ekki trúa því að hún verðskuldi að vera neðst á listanum yfir skítugustu borgir Indlands.
Hann segir að unnið sé að umbótum og að íbúar ættu að verða varir við breytingar á næstu tveimur mánuðum. Umbæturnar feli m.a. í sér nýja ruslabíla og fleiri ruslafötur. Þá verður leitað til einkaaðila til að aðstoða við sorphirðuna og ráðist í vitundarátak um hreinlæti.
Sumir vilja meina að umfjöllunin um Gonda sem skítugustu borg Indlands hafi gert landlægt vandamál að staðarvandamáli. Margir telja að jafnvel þótt pólitíkusarnir tækju sig á stæðu menn enn frammi fyrir því að þurfa að breyta hugarfari almennings, sem „ruslar“ hugsunarlaus.
Skömmu eftir að forsætisráðherrann Narendra Modi komst til valda árið 2014 hóf hann átak undir heitinu Hreint Indland sem miðar að því að stuðla að bættu almennu hreinlæti og stuðla að notkun almenningssalerna.
Hann hefur heitið því að verja miklum fjármunum í að „hreinsa til“ fyrir 150 ára fæðingarafmæli Mahatma Gandhi árið 2019 og segir upprætingu subbuskapar þjóðernislega skyldu.
„Þetta átak miðar að því að láta drauma Gandhi um hreint Indland verða að veruleika,“ tilkynnti Modi, sem hét því m.a. í kosningabaráttu sinni að forgangsraða byggingu salerna umfram byggingu hofa.
„Saman getum við stuðlað að miklum breytingum,“ sagði hann þá.