Bandaríkin segja sig úr UNESCO

Ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta hefur endurskoðað margar alþjóðlegar skuldbindingar Bandaríkjanna.
Ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta hefur endurskoðað margar alþjóðlegar skuldbindingar Bandaríkjanna. AFP

Banda­rík­in hafa sagt sig úr UNESCO, Menn­ing­ar­mála­stofn­un Sam­einuðu þjóðanna, og saka stofn­un­ina um að hneigj­ast gegn Ísra­els­ríki. Talsmaður ut­an­rík­is­ráðuneyt­is Banda­ríkj­anna seg­ir þau munu koma á fót eft­ir­lits­sendisveit, í stað full­trúa sinna í höfuðstöðvum stofn­un­ar­inn­ar í Par­ís.

Ræt­ur þess­ar­ar ákvörðunar má rekja til árs­ins 2011, þegar aðild­ar­ríki UNESCO veittu Palestínu fulla aðild að stofn­un­inni, þrátt fyr­ir and­stöðu Ísra­els­rík­is.

Stjórn­völd í Washingt­on hafa ætíð lagst gegn hvers kyns hreyf­ing­um stofn­ana SÞ í þá átt að viður­kenna Palestínu sem full­valda ríki. Telja þau að slík­ar ákv­arðanir þurfi að bíða þar til samið verði um frið í Mið-Aust­ur­lönd­um.

Auk­inn seina­gang­ur og þörf á um­bót­um

Á und­an­förn­um mánuðum hef­ur rík­is­stjórn Don­alds Trump enn frem­ur end­ur­skoðað marg­ar skuld­bind­ing­ar Banda­ríkj­anna á alþjóðavett­vangi, í sam­ræmi við þá stefnu sem Trump kýs að kalla „Am­er­íka fyrst“.

Talsmaður ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins, Heather Nau­ert, seg­ir ráðuneytið hafa látið fram­kvæmda­stjóra UNESCO, Ir­inu Bo­kova, vita af úr­sögn­inni fyrr í dag.

„Þessi ákvörðun var ekki tek­in af léttúð, og end­ur­spegl­ar áhyggj­ur Banda­ríkj­anna af aukn­um seina­gangi stofn­un­ar­inn­ar, þörf­inni á um­fangs­mikl­um end­ur­bót­um inn­an henn­ar, og áfram­hald­andi hneigð gegn Ísra­el,“ seg­ir hún í yf­ir­lýs­ingu.

Bo­kova seg­ir úr­sögn Banda­ríkj­anna fela í sér högg fyr­ir alþjóðahyggju.

„Það tek­ur mig virki­lega sárt að þessi ákvörðun Banda­ríkj­anna hafi verið tek­in, að þau dragi sig út úr UNESCO.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert