Kosið verður til þings í Austurríki í dag og er búist við að íhaldsmaðurinn Sebastian Kurz taki í kjölfarið við sem kanslari landsins. Kurz verður þar með yngsti leiðtogi ríkis innan Evrópusambandsins en hann er 31 árs gamall.
Fram kemur í frétt AFP að gert sé ráð fyrir að austurríski Þjóðarflokkurinn, flokkur Kurz, fái yfir 30% fylgi í kosningunum og muni í kjölfarið mynda ríkisstjórn með Frelsisflokknum sem skilgreindur hefur verið sem öfgahægriflokkur.
Fram kemur í frétt AFP að verði þetta niðurstaðan skapi það nýjan höfuðverk fyrir Evrópusambandið ofan á útgöngu Bretlands úr sambandinu og uppgang lýðhyggjuflokka víða í ríkjum þess eins og í Þýskalandi og Póllandi.
Helstu áherslur Kurz eru að taka á innflytjendamálunum og þá einkum er snúa að hælisleitendum og ólöglegum innflytjendum. Fjöldi fólks hefur komið til Austurríkis á undanförnum árum í gegnum Balkanskagann.
Kurz hefur einnig lagt áherslu á hóflega skattastefnu. Frelsisflokkurinn mælist í skoðanakönnunum með 25% fylgi en lengi vel var hann með mest fylgi í könnunum þar til Þjóðarflokkurinn kynnti harðari innflytjendastefnu.
Leiðtogi Frelsisflokksins, Heinz-Christian Strache, flutti ræðu á kosningafundi á föstudaginn og hét því að hindra að Austurríkismenn yrðu „minnihluti í eigin heimalandi.“ Flokkurinn var á sínum tíma stofnaður af fyrrverandi nasistum.
Jafnaðarmenn, sem eru við völd í landinu, hafa átt á brattann að sækja. Meðal annars vegna hneykslismála. Leiðtogi þeirra, Christian Kern núverandi kanslari, varaði í gær við fyrirhugaðri hægristjórn og vísaði til sögunnar.
Ekki er talið líklegt að Jafnaðarmenn og Þjóðarflokkurinn geti unnið saman í ljósi þess að Kern og Kurz hafa átt í útistöðum. Þjóðarflokkurinn og Frelsisflokkurinn hafa áður starfað saman í ríkisstjórn á árunum 2000-2007.
Talið er að samstarf flokkanna verði ekki eins umdeilt nú í ljósi þess að þjóðernissinnaðir flokkar hafa víða náð árangri í Evrópu á undanförnum árum. Kurz hefur heitið því að skerða bætur til allra útlendinga og loka íslömskum leikskólum.
Kurz tók við Þjóðarflokknum og batt þá enda á samstarf við Jafnaðarmenn sem varð til þess að boðað var til kosninga fyrr en til stóð áður. Kurz var áður utanríkisráðherra Austurríkis og beitti sér sem slíkur mjög í innflytjendamálum.
Flokkarnir tveir eru ennfremur sammála um að lækka skatta, draga úr regluverki og stemma stigum við afskiptum Evrópusambandsins af innanlandsmálum.
Kjörstaðir voru opnaður klukkan 4:00 að íslenskum tíma og loka klukkan 15:00. Talið er að fyrstu tölur liggi fljótlega fyrir eftir lokun kjörstaða. Um 6,4 milljónir manna eru á kjörskrá.