Dæmd í fangelsi fyrir að afneita helförinni

Ursula Haverbeck, sem þýskir fjölmiðlar hafa kallað
Ursula Haverbeck, sem þýskir fjölmiðlar hafa kallað "nasista ömmuna", er hér með verjanda sínum. AFP

Dómstóll í Þýskalandi dæmdi í dag 88 ára gamla konu til sex mánaða fangelsisvistar fyrir að neita tilvist helfararinnar. Er þetta fimmta sambærilega málið sem dómur hefur fallið í á undanförnum mánuðum.

Konan, Ursula Haverbeck, hefur ítrekað neitað tilvist helfarar nasista sem kostaði milljónir gyðinga lífið, en slíkt flokkast samkvæmt þýskum lögum til þess að kynda undir undir kynþáttahatri.

Þrátt fyrir að Haverbeck hafi nokkrum sinnum áður verið dæmd fyrir sama brot hefur hún ekki setið í fangelsi til þessa og nokkur málanna gegn henni eru enn í áfrýjunarferli.

Haverbeck neitaði því m.a. á fjöldafundi í janúar á þessu ári að rétt væri að það hefðu verið gasklefar í Auschwitz útrýmingarbúðunum.

Þá hefur hún einnig dregið í efa að 1,1 milljón manna hafi verið drepin í útrýmingarbúðum nasista í Póllandi. Hélt Haverback því fram við réttarhöldin að hún hefði bara verið að vitna í bók sem hún var að kynna á viðburðinum. Hún hefur þegar áfrýjað úrskurði dómstólsins.

Þýskir fjölmiðlar hafa kallað Haverback „nasista ömmuna“, en hún er vel þekkt hægri öfgamanneskja og var um tíma stjórnarformaður þjálfunarmiðstöðvar hægri öfgamanna sem var lokað árið 2008 fyrir að breiða út nasista áróður.

Þá hefur hún komið fram í sjónvarpsþáttum þar sem hún hefur haldið því fram að „helförin sé  stærsta lygi sögunnar og sú sem hvað best er viðhaldið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert