Atli Steinn Guðmundsson skrifar frá Ósló
Lagið „Allt fyrir Ísland“, gjöf Norðmanna til íslensku þjóðarinnar og fótboltalandsliðsins frækna, var frumflutt í norsku sjónvarpi í gærkvöldi en í meðfylgjandi myndbandi má hlýða á verkið.
Það er Sigurður Rúnarsson, kerfisfræðingur í Noregi, sem fjallar um lagið á Facebook-síðu sinni og tók upp myndbandið, en lagið var frumflutt í þættinum Mandagsklubben. Sigurður greinir frá því að lagið sé upphaflega stuðnings- og hvatningarlag norska landsliðsins frá tíunda áratug síðustu aldar en hét þá reyndar „Alt for Norge“.
Það er einnig Sigurður sem útvegar megnið af „leikmununum“, boli, húfur, trefla og fána, en af þessu á hann nokkurn lager. Aðstandendur þáttarins auglýstu eftir slíkum munum á síðum Íslendinga í Noregi á Facebook og rann Sigurði blóðið til skyldunnar. „Ég bauð mig auðvitað fram,“ sagði hann í stuttu spjalli við mbl.is en fyrir vikið var Sigurði boðið, ásamt börnum sínum, að vera viðstaddur útsendingu þáttarins en þar notaði hann tækifærið og tók myndbandið á síma sinn.
Höfundur lagsins, Calle Hellevang-Larsen, er landsþekktur spaugari í Noregi og hefur meðal annars gert garðinn frægan í hinum góðkunna sjónvarpsþætti Ylvis sem runninn er undan rifjum bræðranna Bård og Vegard Ylvisåker sem öðluðust heimsfrægð fyrir lag sitt „What does the Fox say?“ hér um árið.
Flutningur Hellevang-Larsen og félaga er hinn áheyrilegasti og textinn rammíslenskur eða „...við erum rauður, hvítur, blár“ eins og þeir félagar syngja í Mandagsklubben í gær. Sjón, og heyrn, er þó sögu ríkari.