„Hann vissi alveg hvað hann var að kom sér út í.“ Þetta hafði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, að segja við ekkju hermanns sem var drepinn í hernaðaraðgerðum í Níger 4. október.
Þingmaður demókrata, Frederica Wilson, greinir frá því að hún hafi heyrt tillitslausar athugasemdir forsetans í símtali sem hann átti við ekkju hermannsins David Johnson, þegar hún var stödd í bíl með fjölskyldunni. BBC greinir frá þessu.
Talsmaður Hvíta hússins hefur tilkynnt að öll samtöl forsetans við fjölskyldur fallinna hermenn séu trúnaðarmál.
Johnson var 25 ára gamall og einn af fjórum hermönnum sem létust í árás vígamanna al-Qaeda í Níger fyrr í mánuðinum. Eiginkona hans, Myeshia, á von á þeirra þriðja barni.
Wilson segir í samtali við CNN að Trump hafi hringt í Myeshia rétt áður en líkkista Johnson var flutt til Miami. „Hann sagði, bókstaflega: Ég meina, hann vissi líklega hvað hann var að fara út í, en ætli það sé ekki sárt,“ segir Wilson um ummæli forsetans.
„Fyrir mér er þetta eitthvað sem má segja í almennu samtali, en ekki við syrgjandi ekkju,“ segir Wilson jafnframt. Hún lýsir því einnig hvernig Myeshia hafi lítið sem ekkert sagt í símann, hún hafi bara grátið.
Wilson hefur nú tjáð sig í færslu á Twitter þar sem hún segir að David Johnson sé hetja. Donald Trump búi hins vegar ekki yfir þeim persónueiginleikum, samkennd eða sæmd, sem þurfi til að gegna hlutverki forseta Bandaríkjanna.
Sgt. La David Johnson is a hero. @realDonaldTrump does not possess the character, empathy or grace to be president of the United States.
— Rep Frederica Wilson (@RepWilson) October 18, 2017
Trump var gagnrýndur fljótlega eftir árásina fyrir að hafa ekki strax samband við fjölskyldur hermannanna sem létu lífið. Síðastliðinn mánudag tilkynnti hann að hann hefði skrifað bréf til nánustu fjölskyldu allra hermannanna og til stæði að hringja í þær fljótlega.