Donald Tusk, forseti Evrópuráðsins, segir að það sé ekki rými fyrir utanaðkomandi afskipti af hálfu ráðsins í Katalóníudeilunni. Hann lét þau orð falla á blaðamannafundi í Brussel í dag eftir spænsk stjórnvöld tilkynntu það í morgun að næstkomandi laugardag yrði hafin undirbúningsvinna við að flytja sjálfstjórnarvöld í Katalóníu til Madríd.
„Við höfum öll okkar tilfinningar, skoðanir og metum þetta á mismunandi hátt, en svo ég tali á formlegum nótum þá er ekkert rými fyrir aðkomu Evrópusambandsins í þessu máli.“
Carles Puigdemont, forseti Katalóníu, segist ekki hafa lýst yfir sjálfstæði héraðsins frá Spáni en hann mun hugsanlega gera það ef spænsk stjórnvöld ákveða að afnema sjálfstæði Katalóníu sem héraðs.
Að óbreyttu munu spænsk stjórnvöld á laugardag hefja undirbúningsvinnu við að flytja sjálfsstjórnarvöld Katalóníu til Madríd, samkvæmt 155. grein spænsku stjórnarskrárinnar. Í greininni segir m.a. ef yfirvöld í héraðinu uppfylla ekki þær skyldur sem útlistaðar eru í stjórnarskránni eða vinna gegn hagsmunum Spánar, sé stjórnvöldum landsins heimilt að grípa til allra mögulegra aðgerða til að knýja þau til að uppfylla téðar skyldur eða standa vörð um umrædda hagsmuni.