Lögreglan á Möltu telur að sprengjan, sem varð blaðakonunni Daphne Caruana Galizia að bana fyrr í vikunni, hafi verið fjarstýrð. Sprengjunni var komið fyrir undir bíl hennar og hann sprengdur í loft upp er hún settist inn í hann skammt frá heimili fjölskyldunnar.
Caruna Galizia var þekktur bloggari í heimalandinu og harður gagnrýnandi stjórnvalda á Möltu og hefur morðið á henni vakið mikinn óhug hjá íbúum eyjunnar. Vann hún m.a. ítarlegar fréttir um spillingarmál tengd forsætisráðherra landsins, Joseph Muscat, og nánum samstarfsmönnum hans og fjölskyldu.
Muscat hét því á miðvikudag að verðlauna hvern þann sem gæti veitt upplýsingar um morðið.
Synir Caruna Galizia gefa hins vegar lítið fyrir það loforð og hafa þess í stað hvatt forsætisráherrann til að segja af sér. Hann eigi að taka pólitíska ábyrgð á fyrsta slíka morðinu á blaðamanni á Möltu frá því að eyjan hlaut sjálfstæði árið 1964.
Muscat hefur hafnað því boði og er nú í Brussel á fundi með ráðamönnum annarra ESB ríkja. Talsmaður forsetans sagði hins vegar í dag að rannsókn málsins miðaði áfram.
„Sönnunargögn benda til þess að sprengja hafi verið sett undir bílinn og að hún hafi verið fjarstýrð,“ hefur Reuteres eftir talsmanninum, sem bætti við að erlendir sprengjusérfræðingar yrðu fengnir til að bera kennsl á GSM-símann sem var notaður til að kveikja í sprengjunni.
Lawrence Cutajar, lögreglustjóri Möltu, segir enga hafa enn verið handtekna í tengslum við rannsóknina og að of snemmt væri að velta ástæðum morðsins fyrir sér. Það muni taka fleiri vikur að safna sönnunargögnunum saman.
Einn sona Caruna Galizia sagði á Facebook-síðu sinni í gær að hún hafi verið ráðin af dögum vegna skrifa sinna. Lýsti hann því einnig hvernig hann hefði hlaupið í örvæntingu í kringum bíl móður sinnar þar sem hann stóð í ljósum logum í gær. Hann reyndi að opna hurð bílsins en það var orðið of seint.
Sonur hennar, Matthew Caruana Galizia, sem einnig er blaðamaður og kom meðal annars að rannsókn á Panamaskjölunum, segir Muscat vera samsekan um morðið á móður hans.