Ríkisstjórn Möltu hefur boðið eina milljón evra í verðlauna og heitið fullri vernd hverjum þeim sem veitt getur upplýsingar um morðið á blaðakonunni Daphne Caruana Galizia. Caruana Galizia var myrt með bílasprengju fyrir utan heimili fjölskyldunnar fyrr í vikunni, en hún var þekktur bloggari í heimalandi sínu og harður gagnrýnandi stjórnvalda á Möltu.
Morðið hefur vakið mikinn óhug hjá íbúum eyjunnar, en Galizia vann m.a. ítarlegar fréttir um spillingarmál tengd forsætisráðherra landsins, Joseph Muscat, og nánum samstarfsmönnum hans og fjölskyldu.
Í yfirlýsingu sem stjórnvöld Möltu sendu frá sér í dag segir að grípa þurfi til „aðgerða sem ekki eigi sér fordæmi“, en stjórnin sé ákveðinn í að leysa þetta „óhemjumikilvæga mál“ og refsa hinum seku.
Stjórnvöld á Möltu hafa áður boðið fé fyrir upplýsingar og fyrir nokkrum árum var heitið verðlaunum fyrir upplýsingar um bankarán. Þetta er hins vegar talið í fyrsta skipti sem stjórnvöld greiða fyrir upplýsingar í morðmáli.
Forsvarsmenn Evrópusambandsins hafa fordæmt morðið á Caruana Galizia og segja það árás á frelsi blaðamanna.
Eiginmaður Caruna Galizia og þrír synir gefa lítið fyrir loforðið um fundarlaunin, en þeir hafa áður hvatt forsætisráherrann til að segja af sér. Hann eigi að taka pólitíska ábyrgð á fyrsta slíka morðinu á blaðamanni á Möltu frá því að eyjan hlaut sjálfstæði árið 1964.
Hefur sonur hennar, Matthew Caruana Galizia, sem einnig er blaðamaður og kom meðal annars að rannsókn á Panamaskjölunum, raunar sagt Muscat vera samsekan um morðið á móður hans.
Hefur Guardian eftir þeim að Caruana Galizia hafi ekki lengur upplifað sig örugga úti á götu og að stjórnvöld og lögregla hafi brugðist því að verja grundvallarrétt hennar til frelsis.