Svo virðist sem fjárfestingarbankinn Goldman Sachs stefni á að flytja evrópskar höfuðstöðvar sínar frá London til Frankfurt í Þýskalandi.
Lloyd Blankfein, framkvæmdastjóri Goldman Sachs, gaf nokkuð skýra vísbendingu um hvað væri í vændum á Twitter í vikunni. „Nýkominn frá Frankfurt. Frábærir fundir, frábært veður. Gott, því ég mun verja mun meiri tíma hér framvegis #Brexit.“
Fjölmörg fjármálafyrirtæki hafa undirbúið flutning frá fjármálahverfi Lundúna, City, frá því ljóst varð að Bretar stefni að útgöngu úr Evrópusambandinu og – að öllum líkindum – sameiginlega markaði þess líka.
Just left Frankfurt. Great meetings, great weather, really enjoyed it. Good, because I'll be spending a lot more time there. #Brexit
— Lloyd Blankfein (@lloydblankfein) October 19, 2017
Bætist bankinn þá í hóp Morgan Stanley, Citigroup, Standard Chartered Plc og Nomura Holdings, en fréttaveitan Bloomberg greinir frá að þeir hafi allir valið Frankfurt undir nýjar höfuðstöðvar á evrópskri grundu. Frankfurt virðist því á góðri leið með að vinna kapphlaupið um arftaka Lundúna sem fjármálamiðstöð Evrópusambandsins, en því hafði einnig verið velt upp hvort bankar kynnu að flytja starfsemina til Dublin, höfuðborgar Írlands, vegna nálægðarinnar.
Þá hafa HSBC og Bank of America ákveðið að flytja sig til Parísar en með þeim færast um 1.700 störf frá London yfir til frönsku höfuðborgarinnar.