Efnuðustu héruð Ítalíu vilja aukna sjálfsstjórn

Feneyjar eru í Veneto, einu efnaðasta héraði Ítalíu. Íbúar þar …
Feneyjar eru í Veneto, einu efnaðasta héraði Ítalíu. Íbúar þar vilja fá aukna sjálfsstjórn. AFP

Tvö af efnuðustu héruðunum í norðurhluta Ítalíu ætla nú að kjósa um hvort íbúar þeirra vilji aukna sjálfsstjórn. BBC segir íbúa Lombardo-héraðs, þar sem fjármálahöfuðborgin Milanó er staðsett, og Veneto, þar sem Feneyjar eru, munu kjósa um málið. Um þriðjungur af þjóðararði Ítalíu er sagður koma frá þessum tveimur héruðum.

Landstjórar í báðum héruðum tilheyra hinni svonefndu Norðansveit sem lengi hefur barist fyrir því að Norður-Ítalía skilji sig frá fátækari grannanum Suður-Ítalíu.

Búist er við að meirihluti kjósenda sé hlynntur aukinni sjálfsstjórn, en niðurstöður kosninganna eru ekki bindandi.

Ítalska stjórnin segir skoðanakannanir vegna málsins ónauðsynlegar, þó að þær séu heimilar samkvæmt stjórnarskrá landsins. Afstaða ítalskra stjórnvalda þykir mjög ólík afstöðu spænskra stjórnvalda til sjálfstæðiskosningar Katalóníubúa fyrr í mánuðinum, en spænska stjórnin tilkynnti í gær að hún muni afnema sjálfsstjórn héraðsins.

Landstjóri Lombardo-héraðs, Roberto Maroni, segir stöðuna gjörólíka. „Við erum ekki Katalónía,“ sagði Maroni við Reuters-fréttastofuna.

„Við ætlum að vera enn innan Ítalíu en með aukna sjálfsstjórn á meðan Katalónía vill verða 29. ríki Evrópusambandsins. Ekki við. Ekki núna.“

Eitt helsta helsta umkvörtunarefni héraðsins er að það greiði meira í skatta en það fær til baka og vilja þeir helminga þau útgjöld. Segir Maroni íbúa Lombardo-héraðs greiða 54 milljörðum evra meira í skatta en héraðið fær til baka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert