Europol aðstoðar Maltverja

Fólk hefur mótmælt á Möltu og krafist réttlætis.
Fólk hefur mótmælt á Möltu og krafist réttlætis. AFP

Þrír rannsóknarlögreglumenn frá Europol verða sendir til Möltu til að aðstoða við rannsókn á morði á blaðamanninum Daphne Caruana Galizia en maltneska lögreglan greindi frá þessu í dag.

Galizia fjallaði ítarlega um spillingu í fjármála- og stjórnmálakerfi eyjunnar. Sprengju var komið fyrir undir bíl Galizia og hann sprengdur í loft upp er hún settist inn í bíl sinn skammt frá heimili fjölskyldunnar 16. október.

Starfsmenn bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) og hollenskir tæknimenn eru þegar komnir á staðinn til að aðstoða maltnesku lögreglunna. Talið er að bílasprengjan hafi verið sprengd með fjarstýringu.

Sýni sem voru tekin á vettvangi hafa verið send til skoðunar. Einnig hefur verið tekið við ábendingum frá almenningi til að reyna að komast til botns í málinu. Áður hafði rík­is­stjórn Möltu boðið eina millj­ón evra í verðlaun og heitið fullri vernd hverj­um þeim sem veitt get­ur upp­lýs­ing­ar um morðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert