Armbandsúr Paul Newman af gerðinni Rolex Daytona Ref 6239, sem var einnig þekkt sem „Paul Newman-úrið“ seldist á uppboði í New York í gærkvöldi fyrir 17,8 milljónir dollara sem samsvarar tæplega 1,9 milljarði króna. Forbes greinir frá.
Niðurstaða uppboðsins lág fyrir 12 mínútum eftir að uppboðið hófst en fyrsta boð í úrið var 10 milljónir bandaríkjadollara. Kaupandinn bauð í úrið símleiðis á meðan 700 manns fylgdust með uppboðinu í salnum en aldrei áður hefur úr selst fyrir jafn háa fjárhæð.
Fyrra heimsmet fyrir Rolex úr í heimi var fyrir Rolex Ref 6062 sem var kallað „Bao Dai“ vegna þess að það var í eigu síðasta keisara Víetnams, úrið seldist fyrir fimm milljónir bandaríkjadollara á sínum tíma en þar áður var dýrasta úr í heimi Rolex Daytona sem seldist fyrir 3,7 milljónir dollara. Dýrasta úr í heimi þar til í gærkvöldi var á hinn bóginn Patek Philippe Ref 1518 sem seldist fyrir 11 milljónir dollara.
Í frétt á vefsíðu uppboðshússins Phillips segir að andrúmsloftið hafi verið rafmagnað þegar fimmtíu þekkt armbandsúr frá tuttugustu öldinni voru boðin upp en þeirra á meðal voru sjaldgæfar og mikilvægar týpur af Omega-, Heuer-, Audemars Pigues- og Carties-úrum.
Hér má lesa meira um úrið sem Paul Newman bar alla daga frá árinu 1969 til 1984.