Móðgun að heiðra nauðgara

Roman Polanski.
Roman Polanski. AFP

Franskir femínistar segja það algjört hneyksli að fyrirhuguð sé kvikmyndaröð þar sem fara á yfir feril kvikmyndaleikstjórans Romans Polanski. Leikstjórinn hefur verið sakaður um nokkur kynferðisbrot en hann nauðgaði meðal annars 13 ára stúlku árið 1977.

Femínistarnir segja þetta móðgun við konur eftir skandalann í tengslum við framleiðandann Harvey Weinstein. Kvikmyndaröðin fer fram í París.

Polanski, sem enn er í útlegð frá Bandaríkjunum vegna nauðgunarinnar fyrir 39 árum, verður viðstaddur opnun hátíðarinnar á mánudag.

Skorað hefur verið á skipuleggjendur að hætta við að sýna myndir Polanski. Aðgerðasinninn Laura Salmona sagði það einstaklega smekklaust að heiðra Polanski á tímum þegar konur væru nýbyrjaðar að opna sig um kynferðislega áreitni í kvikmyndaiðnaðinum.

„Þetta er móðgun við allar konur sem fylktu liði í tengslum við #MeeToo myllumerkið og #BalanceTonPorc (afhjúpum svínið). Þetta er móðgun við öll nauðgunarfórnarlömb, sérstaklega fórnarlömb Polanski,“ skrifaði Salmona í áskoruninni.

Kvikmyndahúsið segist ekki ætla að hætta við fyrirhugaðar sýningar og það ætli ekki að taka sér stöðu dómara í málum Polanski.

„Okkur hungrar í menningu, ekki nauðgunarmenningu,“ bætti Salmona við en 20 þúsund manns hafa skrifað undir áskorunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert