„Lygari“, segir Trump

George Papadopoulos.
George Papadopoulos. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir fyrrverandi ráðgjafa sinn í kosningabaráttunni vegna bandarísku forsetakosninganna vera lygara.

George Papadopoulos hefur játað að hafa logið að bandarísku alríkislögreglunni, FBI, um tímasetningu funda við meintan tengilið rússneskra ráðamanna. Hann, ásamt tveimur öðrum mönnum sem störfuðu við kosningabaráttu Trump, hafa verið ákærðir í rannsókn á meintum áhrifum Rússa á kosningarnar.

„Fölsku fréttirnar eru á fullri siglingu. Eins og lögmaður Pauls Manaforts sagði þá var ekkert leynimakk í gangi og atburðirnir gerðust löngu áður en hann kom til liðs við kosningaherferðina. Fáir þekktu unga sjálfboðaliðann George sem lítið fór fyrir en nú er komið í ljós að hann var lygari. Skoðið Demókratana,” tísti Trump á Twitter-síðu sinni.

Trump hafði áður sagt Papadopuolos vera „toppnáunga”.

Trump og stuðningsmenn hans segja að Demókratar standi á bak við „fölsk” gögn sem hafi að geyma alls kyns smáatriði um meint tengsl Trump við Rússa.

Forsetinn hefur neitað öllum ásökunum um leynimakk við Rússa. Í öðru tísti hvatti hann fólk til að beina sjónum sínum frekar að skattafrumvarpi sem er til meðferðar á þinginu.

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Rússar segja engar sannanir fyrir hendi

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, segir að engar sannanir séu fyrir því að Rússland hafi skipt sér af kosningunum í Bandaríkjunum.

„Við erum sökuð um að hafa skipt okkur af kosningum í Bandaríkjunum og einnig í öðrum löndum án þess að nokkur sönnunargögn séu til staðar,” sagði Lavrov á blaðamannafundi í Moskvu.

Rússar hafa ávallt neitað því að hafa reynt að hafa áhrif á kosningarnar í Bandaríkjunum í fyrra sem leiddu til þess að Trump komst til valda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka