Póstarnir náðu til helmings bandarískra kjósenda

Forsvarsmenn Facebook hafa greint frá því að allt að 126 …
Forsvarsmenn Facebook hafa greint frá því að allt að 126 milljónir Bandaríkjamanna kunni að hafa séð fréttir og greinar sem deilt var af rússneskum nettröllum á sl. tveimur árum. AFP

Forsvarsmenn Facebook hafa greint frá því að allt að 126 milljónir Bandaríkjamanna kunni að hafa séð fréttir og greinar sem deilt var af rússneskum nettröllum á sl. tveimur árum. Samkvæmt upplýsingum frá samfélagsmiðlinum voru um  80.000 fréttir og greinar settar inn á tímabilinu frá júní 2015 í aðdraganda bandarísku forsetakosninganna og fram í ágúst á þessu ári.

BBC segir flestar færslurnar til þess gerðar að beina athygli að samfélagslegu og pólitísku sundurlyndi.

Facebook birti þessar tölur í gær, en forsvarsmenn fyrirtækisins eiga að koma fyrir þingnefnd ásamt forsvarsmönnum Twitter og Google sem þeir eiga að greina frá áhrifum Rússa á þessa vinsælu miðla.

Rússnesk stjórnvöld hafa ítrekað neitað öllum ásökunum um að þau hafi reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á síðasta ári og þar með auka sigurlíkur Donald Trump núverandi Bandaríkjaforseta.

Segja forsvarsmenn Facebook færslurnar hafa verið settar inn af rússnesku fyrirtæki sem hafi tengsl við stjórnvöld í Kreml.

„Þessar gjörðir ganga gegn því ætlunarverki Facebook að byggja upp samfélag og ganga gegn öllu sem við stöndum fyrir,“ skrifaði Colin Stretch einn helsti ráðgjafi Facebook. „Við erum staðráðin í að gera allt sem við getum til að taka á þessari ógn.

Þá segir Washington Post Google hafa greint frá því í gær að rússnesk nettröll hefðu hlaðið inn rúmlega 1.000 myndböndum á YouTube á 18 ólíkum stöðvum.

Twitter segist hins vegar hafa fundið og lokað 2.752 reikninga sem fyrirtækið hefur rekið til rússneskrar netrannsóknarstofnunnar að því er Reuters hefur eftir heimildamanni sem þekkir vel til fyrirtækisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka