Ráðgjafi Trump laug um Rússatengsl

George Papadopoulos er þriðji frá vinstri á þessari mynd sem …
George Papadopoulos er þriðji frá vinstri á þessari mynd sem Donald Trump birti á Twitter af þjóðaröryggisráði sínu í apríl í fyrra. Trump sjálfur situr fyrir enda borðsins. AFP

George Papadopoulos, einn ráðgjafa Donald Trumps í kosningabaráttu hans vegna bandarísku forsetakosninganna, hefur játað sig sekan um að ljúga að bandarísku alríkislögreglunni FBI um tímasetningu funda við meintan tengilið rússneskra ráðamanna.

BBC segir Papadopoulos hafa játað að viðræðurnar hafi átt sér stað á meðan hann starfaði fyrir forsetann, ekki áður eins og hann hafði áður haldir fram. Segir  Papadopoulos að honum hafi verið sagt að tengiliðurinn byggi yfir upplýsingum sem kæmu Hillary Clinton, mótframbjóðanda Trump illa.

Ákæran gegn Papadopoulos er sú fyrsta sem Robert Mueller, sérstakur saksóknari í rannsókn FBI, hefur lagt fram á meintum tengslum milli framboðs Trumps og rússneskra ráðmanna.

Einnig hefur verið greint frá því að Paul Manafort, kosningastjóri Trump hafi lýst sig saklausan af ákærum um peningaþvætti, en þær ákærur tengjast ekki kosningabaráttu Trump.

BBC hefur eftir sérfræðingum að ákæran gegn Papadopoulos geta valdið forsetanum skaða, af því að hún tengist framboði hans með beinum hætti og því hafi Mueller í raun falið raunverulegu fréttina með því að beina athyglinni að Manafort.

Papadopoulos er lögfræðingur, sem sérhæfir sig í alþjóðaorkumálum, er sagður hafa verið nægilega náinn Trump til að birtast á mynd með þjóðaröryggisteymi hans í Twitter-færslu Trump í apríl 2016.

Hafði bara áhuga á Papadopoulos vegna tengsla við framboð Trumps

Þegar Papadopoulos var yfirheyrður af FBI í janúar á þessu ári sagði hann fund sinn með rússnesku tengiliðunum hafa átt sér stað áður en hann fór að vinna fyrir framboð Trumps. Annar tengiliðanna er sagður vera ónefnd rússnesk kona sem  Papadopoulos  taldi hafa tengsl við rússneska ráðamenn.

Hefur hann nú viðurkennt að hafa reynt að nota tengsl hennar til að koma á fundi milli framboðs Trump og rússneskra ráðamanna.

Hinn tengiliðurinn er heldur ekki nefndur á nafn, en er sagður vera prófessor sem sé búsettur í London og sem hafi veruleg tengsl við rússnesk stjórnvöld. Er prófessorinn sagður hafa eingöngu sýnt Papadopoulos áhuga vegna tengsla hans við framboð Trumps.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert