Forseti Úsbekistan býður fram aðstoð

Sayfullo Saipov er 29 ára frá Úsbekistan en búsettur í …
Sayfullo Saipov er 29 ára frá Úsbekistan en búsettur í Flórída í Bandaríkjunum. AFP

Forseti Úsbekistan hefur boðið bandarískum yfirvöldum hjálp við rannsókn á hryðjuverkaárás sem framin var í New York í gær, þegar 29 ára gamall úsbeki ók niður gangandi og hjólandi vegfarendur á hjólreiðastíg. 8 létust í árásinni og að minnsta kosti 11 slösuðust. AFP-fréttastofan greinir frá.

„Úsbekistan mun nýta alla sína krafta og bolmagn til að aðstoða við rannsókn á þessari hryðjuverkaárás,“ sagði Shavkat Mirziyoyev, forseti Úsbekistan, á sama tíma og hann sendi Donald Trump, forseta Bandaríkanna samúðarkveðjur. Yfirlýsing forsetans birtist á heimasíðu utanríkisráðuneytis Úsbekistan.

Úsbekistan er fátækt ríki sem í Mið-Asíu sem tilheyrði fyrrum Sovétríkjunum. Meirihluti íbúa ríkisins eru múslimar. Hryðjuverkasamtök á borð við Ríki íslam hafa sótt þangað meðlimi í vígasveitir sínar, líkt og samtökin gera í fleiri Mið-Asíu ríkjum. Talið er að um 2.000 til 4.000 einstaklingar frá Mið-Asíu hafi gengið til liðs við Ríki íslam á síðustu misserum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert