Leikarinn Dustin Hoffman hefur verið sakaður um kynferðislega áreitni. Atvikið átti sér stað árið 1985 þegar rithöfundurinn Anna Graham Hunter var 17 ára gömul og vann sem nemi við tökur á kvikmyndinni Sölumaður deyr. Hoffman sem er 80 ára gamall káfaði á henni og talað á óviðeigandi hátt um kynlíf við hana. Guardian greinir frá.
Frásögn rithöfundarins kemur í kjölfar holskeflu af lýsingum á samfélagsmiðlum á kynferðisbrotum sem leikarar og starfsmenn í kvikmyndaiðnaðinum hafa orðið fyrir í gegnum tíðina.
„Hann bað mig um að nudda á sér tærnar á fyrsta deginum við tökur sem ég og gerði,“ skrifaði Hunter í Hollywood Reporter. Hún lýsir því jafnframt að leikarinn hafi margsinnis gripið í rassinn á henni, daðrað við hana og talað um kynlíf við hana og í kringum hana.
Einn morguninn fór hún inn í herbergið hans til að taka niður pöntun fyrir morgunmat. Hún lýsir því hvernig hann horfði lengi á hana glottandi og sagði: „Ég ætla að fá tvö harðsoðin egg og léttsoðinn sníp.“ Eftir það fór hann að hlæja. Hunter gekk orðlaus út úr herberginu og fór beint inn á baðherbergi þar sem hún grét.
Á þessum tíma hélt Hunter dagbók yfir þetta fimm vikna tímabil sem hún starfaði við tökurnar. Í dagbókinni greinir hún ítarlega frá áreitni Hoffmans sem hún jafnframt sendi systur sinni til lestrar. Einn daginn þegar hún fylgdi leikaranum í limósínuna hans greip hann fjórum sinnum í rassinn á henni. Hún tók höndina á honum í burtu og sló hann jafn oft til baka fyrir uppátækið og sagði við hann að hann væri „ógeðslegur gamall karl“.
Hunter fullyrðir að á þessum tíma hafi yfirmaður hennar rætt við hana og sagt henni að hún þyrfti að „fórna“ einhverjum af gildum sínum fyrir framleiðslu kvikmyndarinnar.
„Þegar ég er orðin 49 ára gömul skil ég að það sem Dustin Hoffman gerði passar inn í stórt mynstur sem konur í Hollywood og annars staðar hafa þurft að upplifa,“ skrifar hún. „Hann var rándýr. Ég var barn og hann áreitti mig kynferðislega.“
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem leikarinn er til vandræða. Þegar hann lék með Meryl Streep í kvikmyndinni Kramer vs Kramer sló hann hana í andlitið til þess að bæta frammistöðu hennar í dramatískri senu, að eigin sögn. Hann stríddi henni einnig viðstöðulaust á því að fyrrverandi kærasti hennar hefði látist. „Ég var að skilja á þessum tíma. Ég hafði verið að nota eiturlyf og stunda skemmtanalífið og það hafði áhrif á mig,“ sagði Hoffman til útskýringar á framferði sínu á þeim tíma.