NRK fjallar um Kötlugos

Mýrdalsjökull og Eyjafjallajökull en eldstöðin Katla er undir Mýrdalsjökli.
Mýrdalsjökull og Eyjafjallajökull en eldstöðin Katla er undir Mýrdalsjökli. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Katla heitir eldfjallið og það er eins gott að læra nafnið strax, því þegar næsta eldgos verður munu mörg lönd finna vel fyrir því,“ segir í inngangi vefútgáfu fréttar norska ríkisútvarpsins NRK um Kötlu og möguleg eldsumbrot þar en NRK hefur einnig unnið sjónvarpsfrétt um málið.

Jan Espen Kruse fréttamaður er í fréttinni staddur á toppi Kötlu og talar um að nú séu 99 ár liðin frá síðasta gosi og margir telji að nú megi búast við nýju gosi.

NRK lítur í heimsókn á Veðurstofu Íslands og ræðir þar við Kristínu Jónsdóttur „jordskjelvskoordinator“ sem þýða mætti á íslensku sem jarðhræringasamhæfingarstjóra en Kristín er jarðeðlisfræðingur að mennt.

2,5 milljónir ferðamanna á ári

Kristín fræðir NRK um að vegna hækkandi hitastigs á jörðinni bráðni jökullinn ofan á Kötlu hratt og þyngd hans verði þar með minni. Þetta leiði til aukinnar virkni neðanjarðar og hættan á nýju eldgosi aukist samfara þessu. Einnig ræðir ríkisútvarpið við Melissu Pfeffer eldfjallafræðing sem stödd er í Reykjavík og segir hún ösku frá Kötlugosi muni hafa áhrif á flugumferð auk þess sem búast megi við hlaupum í ám vegna ísbráðnunar.

Greint er frá því að ferðamannastraumurinn til þessa 300.000 íbúa lands sé um tvær og hálf milljón á ári og erfitt geti reynst að ná til ferðamanna í ferðum um Mýrdalsjökul og nágrenni komi til Kötlugoss. NRK ræðir við Víði Reynisson, lögreglufulltrúa og verkefnastjóra hjá lögreglunni á Suðurlandi, sem áður var deildarstjóri hjá Almannavörnum. Víðir segir frá boðskipta- og viðvörunarkerfi sem sendi skilaboð um yfirvofandi eða hafið eldgos í alla farsíma á hættusvæðinu.

Að lokum segir NRK frá því að verið sé að byggja hótel í Vík í Mýrdal þrátt fyrir alla þá hættu sem fylgt geti næsta gosi en Vík og nágrenni sé ákaflega fjölsóttur ferðamannastaður þessi misserin. Rætt er við Pálma Kristjánsson hótelstjóra í Vík í Mýrdal og hann spurður hvort gestir hans verði ekki í hættu við stór hlaup og ísbráðnun en hann telur svo ekki vera. „Maður getur auðvitað aldrei verið viss en ég hugsa að allir ættu að vera öruggir séu þeir staddir uppi á annarri hæð hótelsins,“ segir Pálmi og á lokaorðin í gosumfjöllun NRK.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert