Puigdemont gaf sig fram við lögreglu

Carles Puigdemont.
Carles Puigdemont. AFP

Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti katalónsku heimastjórnarinnar, hefur, ásamt helstu ráðgjöfum sínum, gefið sig fram við lögregluyfirvöld í Belgíu. Þetta kemur fram á vef BBC.

Spænskur dómari gaf út evrópska handtökuskipun á hendur Puigdemont á föstudag, en hann hefur að undanförnu dvalið í Belgíu eftir að spænska stjórnin vék honum úr embætti vegna þeirrar ákvörðunar hans og þingsins í Katalóníu að lýsa yfir sjálfstæði héraðsins. 

Hann segist ekki vilja snúa aftur til Spánar nema hann hljóti sanngjörn réttarhöld. 

Puigdemont og samverkamenn hans í héraðsstjórn Katalóníu hafa verið sakaðir um tilraun til uppreisnar og að hafa reynt að fá menn til þess að óhlýðnast fyrirmælum yfirvalda. Þungar refsingar liggja við þessum brotum.

Saksóknarar í Belgíu hafa ákveðið að boða til blaðamannafundar vegna málsins síðar í dag. 

Spænska stjórnin hefur boðað til kosninga til nýs héraðsþings í Katalóníu 21. desember eftir að hafa nýtt stjórnarskrárákvæði sem heimilar henni að leysa upp katalónska þingið og víkja héraðsstjórninni frá. Puigdemont kvaðst ætla að virða úrslit kosninganna og hvatti spænsk stjórnvöld til að gera það einnig ef aðskilnaðarsinnar fengju aftur meirihluta sætanna á héraðsþinginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert