Skatturinn rannsakar þekkta Svía

Leif Östling, stjórnarformaður stærstu atvinnurekandasamtaka Svíþjóðar (Svenskt näringsliv).
Leif Östling, stjórnarformaður stærstu atvinnurekandasamtaka Svíþjóðar (Svenskt näringsliv). Wikipedia/Vogling

Sænsk skattayfirvöld hafa hafið rannsókn á þekktum kaupsýslumönnum þar í landi eftir að upplýst var um skattaundanskot í Paradísar-skjölunum svo nefndu. Skattayfirvöld segja að reynslan frá Panama-skjölunum nýtist vel við rannsóknina.

Blaðamenn fréttaskýringarþáttarins Uppdrag granskning í sænska sjónvarpinu eru meðal þeirra fjölmörgu fjölmiðlamanna sem komu að rannsókn skjalanna. Fjölmiðlar víða um heim hófu að fjalla um gögnin í gær.

Reykjavík Media og RÚV sáu um úrvinnslu gagna á Íslandi en gögnin eru fengin frá þýska blaðinu Süddeutsche Zeitung sem kom þeim til alþjóðasamtaka rannsóknarblaðamanna, International Consortium of Investigative Journalists. RÚV ætlar að fjalla um Íslendinga í skjölunum annað kvöld, tveimur sólarhringum eftir að erlendir fjölmiðlar upplýsa um aðkomu samlanda sinna að skattaundanskotum í gegnum lögmannsstofuna Appleby á Bermúda og fleiri aðila.

Samkvæmt frétt sænska ríkisútvarpsins taka 300 starfsmenn sænsku skattstofunnar þátt í yfirferð á skjölunum, sem eru 13,4 milljónir talsins. „Við lærðum margt á vinnunni með Panama-skjölin árið 2016 og það var aldrei spurning um að það yrði nýr leki aðeins hvenær. Ég tel að þeir verði mun fleiri,“ segir Margareta Nyström, sem fer með alþjóðleg samskipti ríkisskattstjóra Svíþjóðar, í viðtali við SVT.

Einn þeirra sem er afhjúpaður í Paradísar-skjölunum er Leif Östling, stjórnarformaður stærstu atvinnurekandasamtaka Svíþjóðar (Svenskt näringsliv). Fram kom í þættinum  Uppdrag granskning að hann átti þýsk hlutabréf, sem metin voru á 30 milljónir sænskra króna, sem svarar til 380 milljóna íslenskra króna, skráð á Möltu. Í þættinum var rætt við hann um hlutabréfin og ástæðuna fyrir því að hann ákvað að koma þeim fyrir á Möltu sem er þekkt fyrir lága skatta.

„Vandamálið er sænska skattkerfið og hversu háir skattar eru í landinu. Þú spyrð sjálfan þig: Ef þú greiðir 20-30 milljónir króna á ári - hvað í fjandanum fæ ég fyrir peningana?"

Talsverð reiði greip um sig meðal Svía á samfélagsmiðlum vegna ummæla Östling enda hefur sænska velferðarkerfið þótt gott hingað til.#vadfanfårjag er mjög vinsælt myllumerki á samfélagsmiðlum þessa stundina.  Er Östling meðal annars bent á að Svíþjóð þykir besta land í heimi að búa í, fæðingarorlof, ókeypis háskólamenntun, frí heilbrigðisþjónusta, eftirlaun og gott almannatryggingakerfi.

„Til skammar,“ segir ráðherra heilbrigðis- og velferðarmála, Annika Strandhäll, á Twitter. Hún segir þetta móðgun í garð kennara, hjúkrunarfræðinga og lögreglu sem tryggi að landið virki á meðan hann græði. 

Ungir jafnaðarmenn hafa krafist afsagnar Östling og segja ekki við hæfi að formaður samtaka atvinnurekenda hegði sér á þennan hátt.

Östling dró í land í morgun og sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist hafa tjáð sig sem einstaklingur ekki sem stjórnarformaður samtakanna. Hann hafi tjáð sig hugsunarlaust og að sænskt velferðarkerfi sé gott.

Hann bendir á að þrátt fyrir að hafa fjárfest að hluta erlendis þá hafi hann greitt 84 milljónir sænskra króna (rúmlega milljarð íslenskra króna) í tekjuskatt og 23 milljónir  (291 milljónir króna) í auðlegðarskatt á síðustu sjö árum í Svíþjóð.

„Eðlilega er hægt að spyrja hvort það sé eðlilegt að koma peningum þínum fyrir í öðru Evrópusambandsríki en því sem þú býrð í. Ég tel að það sé í lagi svo lengi sem lögum og reglum er fylgt. Sem ég hef gert. Innan ESB ríkir frjálst flæði fjármagns,“ segir Östland og vísar til þess að sönnunarbyrðin sé í höndum þeirra sem eru þessu andsnúnir og telji það óeðlilegt og gangi gegn núgildandi löggjöf og lögum ESB.

Meðal þeirra sem eru í Paradísar-skjölunum eru viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, Wilbur Ross, sem átti fyrirtæki með tengdasyni Vladimír Pútín og Elísabet Englandsdrottning.

Í frétt SVT er haft eftir fjármálaráðherra Svíþjóðar, Magdalena Andersson, að ríkt forréttindafólk nýti sér skattaskjól á meðan almenningur greiði fyrir löggæslu, skóla og fleira með sköttum sínum. SVT rifjar upp aðkomu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins og þáverandi forsætisráðherra, að Panama-skjölunum í því samhengi.

Fleiri fréttir sænska ríkissjónvarpsins en fátt annað er jafn mikið fjallað um í fjölmiðlum heimsins í gær og í dag og nýju gögnin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert