Stormasamt fyrsta ár forsetans

Ár er liðið frá því að Donald John Trump var …
Ár er liðið frá því að Donald John Trump var kjörinn 45. forseti Bandaríkjanna. AFP

Ár er liðið frá því að Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna og varla hefur liðið dagur án þess að forsetinn hafi valdið töluverðum usla í fjölmiðlum, að minnsta kosti í Bandaríkjunum, ef ekki um heim allan.

Trump sigraði í 30 ríkjum af 50 og tryggði sér 306 kjörmenn sem dugði honum til sigurs. Mótframbjóðandi hans, Hillary Clinton, sem lengi vel leit út fyrir að verða sigurvegari kosninganna, fékk 232 kjörmenn.

„Við munum ná svo mörgum sigrum ef ég verð kjörinn að þið gætuð orðið leið á því að sigra,“ var meðal þess sem Trump lofaði Bandaríkjamönnum í kosningabaráttu sinni.

Donald Trump sór embættiseið í janúar en hann lét til sín taka frá fyrsta degi eftir að ljóst var að hann hefði náð kjöri. Markmið hans var jú að „gera Bandaríkin að stórveldi á ný“.

Mikill mannfjöldi var saman kominn til að fylgjast með Trump …
Mikill mannfjöldi var saman kominn til að fylgjast með Trump sverja embættiseiðinn í janúar. AFP

Obamacare, múrinn, skattar og innviðir

En hvernig hefur forsetanum gengið í embætti fram að þessu? Fréttamaður NBC hefur skipt grundvallarmarkmiðum Trump í fjóra flokka: Að reisa landamæramúr, afnema og skipta út gildandi heilbrigðislöggjöf, eða Obamacare, lækka skatta og fjárfesta milljörðum dollara í innviðauppbyggingu.

Síðastliðið ár hafa þrjár tilraunir til að fella Obamacare úr gildi og koma nýju heilbrigðisfrumvarpi í gegnum þingið ekki tekist. Ef Trump mun takast að afreka einhverja lagalega sigra á sínu fyrsta ári sem forseti mun það líklega tengjast endurskipulagningu á skattalöggjöf.

Stefnt var að því að kynna áætlun um uppbyggingu á innviðum í lok september, en ekkert hefur heyrst frá Hvíta húsinu um að slík áætlun sé á teikniborðinu.

Hvað varðar múrinn á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, sem var eitt helsta kosningaloforð Trump, hefur forsetinn gefið það út að hann muni tryggja að hann verði reistur, sama hvað það kostar.

Stjórnvöld í Mexíkó munu ekki taka þátt í kostnaðinum og hafa margítrekað að Mexí­kó muni ekki greiða fyr­ir múr eða aðrar efn­is­leg­ar hindr­an­ir á landa­mær­un­um „und­ir nokkr­um kring­um­stæðum“.

Donald Trump og eiginkona hans Melania.
Donald Trump og eiginkona hans Melania. AFP

Þrátt fyrir mörg umdeild atvik á þessu fyrsta ári forsetatíðar Trump, hvort sem þau tengjast stríðsyfirlýsingum gagnvart „eldflaugamanninum“ í Norður-Kóreu, mikilli starfsmannaveltu í Hvíta húsinu, vafasömum tengslum við Rússland í kosningabaráttunni, ásökunum um kynferðislega áreitni, ferðabanni, andúð NFL-leikmanna í garð forsetans eða fölskum fréttum, þá er hægt að greina jákvæða þróun í bandarísku samfélagi. Hvort það sé forsetanum sjálfum að þakka skal ósagt látið. Horfur í efnahagsmálum hafa færst til betri vegar með sterkri stöðu hlutabréfamarkaðsins og atvinnuleysi hefur minnkað.

Kenna fjölmiðlum um slakt gengi Trump

Þó svo að gagnrýnisraddir í garð Trump verði háværari með hverjum deginum er enn þá að gæta talsverðrar ánægju með störf forsetans hingað til. Samkvæmt könnun sem LA Times lagði fyrir kjósendur er meirihluti kjósenda Trump ánægður með störf hans og myndi kjósa hann aftur, gæfist kostur á því. Þeir kenna ekki forsetanum um hversu hægt gengur að koma stefnumálunum í gegn, heldur kenna þeir frekar fjölmiðlum um slakt gengi hans.

Samkvæmt nýlegri könnun CBS-fréttastofunnar eru 39% kjósenda ánægðir með störf forsetans. Ánægjuhlutfallið er heldur hærra hjá kjósendum Repúblikanaflokksins, eða 84%.

„Mér finnst á margan hátt eins og að hann hafi fengið „krísukúrs“ í Stjórnmálum 101 en á sama tíma hefur hann komið nokkuð vel undan þessu,“ segir repúblikaninn Steven Shook, sem kaus Trump í fyrra og myndi gera slíkt hið sama nú.

Michelle Obama, Melania Trump, Donald Trump og Barack Obama í …
Michelle Obama, Melania Trump, Donald Trump og Barack Obama í Hvíta húsinu, daginn sem Trump tók við embætti. AFP

Þessi yfirferð er alls ekki tæmandi og ljóst er að Trump hefur verið iðinn í starfi sínu fyrsta árið, burtséð frá árangri. Þeir sem eru komnir með leið á að sjá nafn Trump í fjölmiðlum þurfa að draga andann djúpt því eitt er víst, hann á að minnta kosti þrjú ár eftir í embætti, nema til embættissviptingar (e. Impeachment) komi. Það er aldrei að vita með ólíkindatólið Trump. Eitt er þó víst, hann mun halda áfram að tjá sig tæpitungulaust á Twitter.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert