Endurskoða kjarnorkuheimild forsetans

Donald Trump Bandaríkjaforseti. Utanríkisnefnd öldungadeildar þingsins hefur áhyggjur af að …
Donald Trump Bandaríkjaforseti. Utanríkisnefnd öldungadeildar þingsins hefur áhyggjur af að Trump sé of kviklyndur til að honum sé treystandi fyrir kjarnavopnum. AFP

Bandaríkjaþing endurskoðar nú í fyrsta skipti í rúm 40 ár heimild Bandaríkjaforseta til að hefja kjarnorkuárás. BBC greinir frá því að utanríkisnefnd öldungadeildar þingsins sé nú að skoða heimildir forsetans til að beita kjarnavopnum.

Formaður nefndarinnar, repúblikaninn Bob Corker, sakaði í síðasta mánuði Donald Trump um að beina Bandaríkjunum út í þriðju heimstyrjöldina. Trump hét því í ágúst að láta eldi og brennistein rigna yfir Norður-Kóreu hætti ríkið ekki við kjarnorkuáætlun sína.

Heimild Bandaríkjaforseta til að hefja kjarnorkuárás var síðast til umræðu í þinginu árið 1976.

Trump óstöðugur og kviklyndur

„Við höfum áhyggjur af að forsetinn sé svo óstöðugur, kviklyndur og að ákvarðanatökuferli hans sé svo óraunhæft að hann kynni að fyrirskipa kjarnorkuárás sem sé fullkomlega úr takti við þjóðaröryggi Bandaríkjanna,“ sagði öldungadeildarþingmaðurinn og demókratinn, Chris Murphy.

Þingmenn vildu þá einnig vita hvað gerist ef að forsetinn fyrirskipar kjarnorkuárás.

Robert Kehler, sem áður fór fyrir herstjórn landsins, sagði að í sínu fyrra starfi hefði hann fylgt eftir fyrirskipun forsetans að gera árásina – svo framarlega sem hún væru lögleg.

Væri hann hins vegar óviss um lögmæti aðgerðarinnar þá hefði hann ráðfært sig við sína ráðgjafa.

Undir vissum kringumstæðum, útskýrði hann, „hefði ég sagt að ég væri ekki tilbúinn að halda áfram.“

Taugaveiklunarhlátur hjá þingmönnum

„Hvað hefði gerst þá,“ spurði repúblikanaþingmaðurinn Ron Johnson þá Kehler. „Ég veit það ekki,“ viðurkenndi Kehler sem framkallaði hlátur hjá viðstöddum.

Fréttaritari BBC á vettvangi sagði hláturinn hins vegar hafa verið taugaveiklunarhlátur.

Vel er fylgst með yfirheyrslunum, þó að engir ráðherrar í stjórn Trump sitji þar fyrir svörum. Corker, sem fer fyrir nefndinni, hefur átt í deilum við Trump á Twitter í haust og líkti þá Hvíta húsinu m.a. við leikskóla fyrir fullorðna.  

Demókrataþingmaðurinn Edward Markey hefur þegar lagt drög að frumvarpi fyrir þingið þar sem dregið er úr valdi forsetans til að hefja kjarnorkuárás.

Í dag er samþykkis þingsins krafist varðandi notkun hefðbundins herafla, en kjarnavopnin hafa verið á valdi forsetans frá því að þau fyrstu bættust í vopnabúrið.

Ástæða þessa er sögð vera sú að sé kjarnorkuflaug skotið á Bandaríkin frá hinum hluta hnattarins þá geti hún lent í Bandaríkjunum á rúmlega 30 mínútum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert