Banna sölu á snjallúrum fyrir börn

Snjallúr hafa verið vinsæl hér á landi.
Snjallúr hafa verið vinsæl hér á landi. Mynd/Amazon.com

Fjarskiptastofnun Þýskalands hefur bannað sölu á svokölluðum snjallúrum fyrir börn, þar sem þau þykja brjóta í bága við lög og reglur landsins um eftirlit með borgurum og öryggisgæslu. The Guardian greinir frá.

Úrin hafa létt á áhyggjum margra foreldra, enda er hægt að fylgjast með barninu í gegnum þau, hringja í barnið og staðsetja það með GPS-tækni. Úrin eru helst notuð af börnum á aldrinum 5 til 12 ára og hafa verið vinsæl hér á landi.

Fjarskiptastofnun Þýskalands hefur nú þegar gripið til aðgerða og stöðvað sölu úranna í nokkrum netverslunum. Foreldrar barna sem eiga slík úr nú þegar eru hvattir til að eyðileggja úrin. Þá eru skólar beðnir um að vera vakandi fyrir því að slík úr séu ekki notuð á skólatíma.

„Með ákveðnu snjallforriti geta foreldar notað úrin til að hlusta á það sem er að gerast í umhverfi barnanna án þess að nokkur viti af. Við lítum á þessi úr sem ólöglega senda,“ sagði Jochen Homann, forstjóri stofnunarinnar, í yfirlýsingu. „Rannsóknir okkar hafa sýnt að foreldrar hafa meðal annars notað úrin til að fylgjast með kennurum í kennslustundum,“ sagði jafnframt í yfirlýsingunni.

Ekki er langt síðan lögreglusjórinn á Suðurnesjum hvatti foreldra, í Facebook-færslu, til að kaupa snjallúr úr handa yngstu börnunum.

Sá sem skrif­aði færsl­una fyr­ir hönd lög­reglu­stjór­ans sagðist sjálf­ur hafa keypt staðsetn­ingar­úr fyr­ir yngsta fjöl­skyldumeðlim­inn. „Það besta er að barnið get­ur hringt úr því, þú get­ur hringt í barnið þitt og í því er GPS sem ger­ir þér kleift að sjá alltaf hvar barnið þitt er,“ sagði í færsl­unni sem birt var í kjölfar þess að átta ára drengur á Suðurnesjum skilaði sér ekki heim eftir skóla og farið var að leita að honum. Hann fannst hins vegar heill á húfi síðar um kvöldið.

Ákvörðunin um að banna sölu á úrunum í Þýskalandi kemur í kjölfar ákvörðunar sem tekin var í febrúar um að bana sölu á talandi dúkku, á þeim forsendum að hægt væri að „hakka“ hugbúnað hennar og komast í persónulegar upplýsingar.

Aðgerðir stofnunarinnar endurspegla vaxandi áhyggjur af þeirri hættu sem talin er steðja að friðhelgi einkalífsins vegna aukinnar notkunar á snjalltækjum.

Eftirlit með borgurum er sérlega viðkvæmt málefni í Þýskalandi þar sem öryggissveitir Nasista fylgdust náið með íbúum landsins í síðari heimsstyrjöldinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert