Stjórnmálamaður í Zacatecas-fylki í Mexíkó hvetur nú íbúa til að borða rottusúpu. Með þessu vill þingmaðurinn Guadalupe Flores bæði reyna að viðhalda einni af hefðum fylkisins sem og að afnema smánarblettinn sem fylgir því að borða nagdýr.
„Hugmyndin er að einfalda neyslu á rottum sem búa í ökrum, hreinum dýrum sem ekki tengjast á neinn hátt þeirri tegund sem hefst við í ræsunum,“ segir Flores, sem á sæti á fylkisþingi Zacatecas.
Rottusúpa – caldo de rata – hefur verið borðuð í Zacatecas, fylki sem er á hásléttunni í miðju Mexíkó, frá því á nýlendutímunum.
Auk rottunnar er hellingur af grænmeti í súpunni, m.a. maís og kúrbítur, auk þess sem hún er krydduð með óreganó. Súpan er enn víða borðuð, sérstaklega í mötuneytum, en ratar sjaldan á matseðla veitingastaða.
Margir eldri íbúar í héraðinu líta á rottusúpuna sem allra meina bót, hún vinni bug á venjulegu kvefi, sykursýki og jafnvel gigt. Á fyrri tímum voru mæður með börn á brjósti látnar neyta súpunnar og þá hefur hún orð á sér fyrir að koma kynhvötinni í gang.
„Súpan hefur hátt prótíninnihald og er líka rík að vítamínum,“ hefur Guardian eftir Manuel de Jesús Macías Patiño, prófessor við sjálfstjórnarháskólann í Zacatecas, sem hefur stúderað rotturnar.
Mörgum finnst hugmyndin um rottukjöt hins vegar ógeðsleg. „Þeim finnst þetta vera eitthvað viðbjóðslegt,“ sagði Flores. „Margir eru samt til í að prófa og finnst hún þá góð,“ bætti hún við og sagði rottukjötið helst minna á kanínu.