Æðsti stjórnandi Bandaríkjahers í öllu sem viðkemur kjarnavopnum segist ekki munu hlýða ólögmætri fyrirskipun um kjarnorkuárás frá forseta Bandaríkjanna.
Hershöfðinginn John Hyten segir að sem yfirmaður kjarnorkuvopnamála muni hann leiðbeina forsetanum og finna aðra löglega valmöguleika, komi slík fyrirskipun. BBC greinir frá.
Þetta segir Hyten aðeins nokkrum dögum eftir að sú umræða skapaðist á bandaríska þinginu að endurskoða ætti heimild Bandaríkjaforseta til að beita kjarnavopnum, en BBC greindi frá því í síðustu viku að utanríkisnefnd öldungadeildarinnar væri nú að fara yfir heimildir forsetans í þeim efnum.
Formaður nefndarinnar, repúblikaninn Bob Corker, sakaði í síðasta mánuði Donald Trump um að beina Bandaríkjunum út í þriðju heimsstyrjöldina. Trump hét því í ágúst að láta eldi og brennisteini rigna yfir Norður-Kóreu hætti ríkið ekki við kjarnorkuáætlun sína.
Hafa nokkrir þingmenn viðrað áhyggjur sínar af því að Trump kunni að fyrirskipa kjarnorkuárás með mjög óábyrgum hætti en aðrir segja nauðsynlegt fyrir forsetann að hafa þessa heimild án afskipta frá lögfræðingum. Er þetta í fyrsta skipti í 40 ár sem heimild forsetans til að hefja kjarnorkuárás er rædd í þinginu.
Á alþjóðlegri öryggisráðstefnu í Halifax í Kanada í gær sagði Hyten að mikið væri hugsað um þessa hluti. Þegar menn bæru þessa ábyrgð væri það nauðsynlegt.
Sagðist hershöfðinginn hafa kynnt sér lög Bandaríkjanna um vopnuð átök í fjölda ára og að forsetinn yrði að hafa ýmislegt í huga þegar ákvörðun um kjarnorkuárás væri tekin.
„Ég veiti forsetanum ráðgjöf og hann segir mér hvað skal gera,“ sagði Hyten á ráðstefnunni.
„Ef það er ólöglegt, hvað gerist þá? Ég segi forsetanum það og hvað segir hann þá? Hann spyr hvað sé þá löglegt og við finnum flöt á hvernig megi bregðast við aðstæðum. Þannig virkar þetta. Þetta er ekki flókið.“
Hyten bætti svo við: „Ef þú fyrirskipar ólöglega aðgerð ferðu í fangelsi þar sem þú gætir þurft að dúsa alla þína ævi.“