Bandaríski fjöldamorðinginn Charles Manson er látinn 83 ára að aldri. Hann hefur eytt nánast öllum fullorðinsárum sínum í fangelsi en hann var dæmdur til dauða fyrir morðið á leikkonunni Sharon Tate, eiginkonu kvikmyndaleikstjórans Roman Polañski, auk fleiri morða árið 1969. Dómnum var síðar breytt í lífstíðarfangelsi.
Samkvæmt frétt New York Times lést Manson á sjúkrahúsi í Kern-sýslu í Kaliforníu í gær. Dánarorsökin er af eðlilegum orsökum, segir í tilkynningu frá fangelsismálayfirvöldum í Kaliforníu.
Manson leit á það sem sitt hlutverk að stuðla að stríði milli kynþátta og að Bítlarnir, sem hann hafði dálæti á, hefðu varað við yfirvofandi helför í tónlist sinni. Gaf hann helför þessari nafnið Helter Skelter, eftir lagi Bítlanna. Greip Manson til þess ráðs að láta fylgjendur sína slátra auðugu fólki á heimilum þess og láta grun falla á herskáa hópa blökkumanna, svo sem Svörtu pardusana, til að kynda undir stríði milli kynþátta. Spá hans var sú að svartir myndu fara með sigur af hólmi í þeirri styrjöld en þar sem þeir hefðu ekki burði til að stjórna sjálfir myndu þeir gera hann að leiðtoga þjóðarinnar. Á endanum stæðu engir uppi nema „hinir útvöldu“, þ.e. Manson-fjölskyldan.
Manson var dæmdur ásamt fjórum öðrum úr Manson-fjölskyldunni fyrir morðið á Tate, sem var komin á níunda mánuð meðgöngu þegar henni var slátrað ásamt sex öðrum. Manson var ekki viðstaddur morðin sjálfur en fyrirskipaði þau og stýrði undirsátum sínum við verknaðinn.